Johan Boskamp, knattspyrnustjóri Íslendingaliðsins Stoke City á Englandi, tilkynnti eftir stórsigur liðsins á Brighton í lokaumferð deildarkeppninnar í dag að hann væri hættur. Hinn hollenski Boskamp hefur átt stormasamt samband við íslenska eigendur félagsins og sætti sig ekki við að vera aðeins boðin eins árs framlenging á samningi sínum.
"Svona er þetta stundum í fótboltanum. Ég er nokkuð vonsvikinn að fara frá félaginu, en ég veit að framtíð Stoke er björt. Ég mun nú opna fyrir viðræður við önnur félög, líklega í Hollandi eða í Belgíu," sagði Boskamp.
Stoke hafnaði í 13. sæti í ensku 1. deildinni í vor, en eftir mjög góða byrjun fór að halla undan fæti hjá liðinu og vonin um að komast upp um deild varð fljótlega að engu.