Sam Allardyce, stjóri Bolton, segir að hann hefði vissulega kosið að fá auðveldari andstæðinga en Arsenal í fjórðu umferð enska bikarsins, en er þó mjög sáttur við að hafa fengið heimaleik.
"Við hefðum nú sennilega kosið okkur auðveldari andstæðing en Arsenal, en við komum þó á undan upp úr hattinum og það er mikilvægt að fá heimaleik í þessari keppni. Arsenal er auðvitað stórt lið og þessi leikur verður okkur gríðarlega mikilvægur. Við töpuðum einmitt fyrir Arsenal í þessari keppni í fyrra og viljum því gera betur í ár. Okkur hefur líka gengið vel með þá í deildinni og því erum við bjartsýnir fyrir þennan leik," sagði Allardyce.