Bæði lið Loga Gunnarssonar og Jóns Arnórs Stefánssonar töpuðu sínum leikjum um helgina. ToPo, lið Loga í finnsku úrvalsdeildinni, tapaði á útivelli fyrir TC, 96-83, og var Logi annar stigahæstu leikmanna liðsins með 20 stig. ToPo er sem stendur í sjötta sæti deildarinnar sem telur alls tólf lið. Liðið hefur unnið fjóra leiki en tapað þremur.
Jón Arnór kom ekki við sögu er Pamesa Valencia tapaði á útivelli fyrir Alta Gestion í spænsku ACB-deildinni. Hann meiddist í síðasta leik og verður frá næstu þrjár vikurnar. Valencia hefur unnið einn leik af fjórum í deildinni.