Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hvatti danska stjórnmálamenn og ráðamenn til þess að forðast að vísa til guðs í opinberum ræðuflutningi.
Mér líkar það svo sannarlega ekki að stjórnmálaleiðtogar fjalli opinberlega um guð í ræðum, var haft eftir Fogh Rasmussen í Kristilega dagblaðinu í Danmörku.
Hann sagði það hættulega blöndu að vísa oft til guðs í opinberum ræðum, sérstaklega þegar stríðandi andstæðingar telja sig allir hafa guð á sínu bandi, hver fyrir sig.
Allar mannlegar verur, þar á meðal stjórnmálamenn, ættu hér að sýna auðmýkt og viðurkenna að við vitum ekki einu sinni hvað þessi eða hinn guðinn myndi halda um athafnir okkar, sagði forsætisráðherrann.
Fogh Rasmussen er ekki þekktur fyrir að mæta oft í kirkju. Ummæli hans þykja stinga mjög í stúf við afstöðu þeirra Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og George W. Bush Bandaríkjaforseta, sem báðir sækja kirkju reglulega og hafa óspart vitnað í guð í tengslum við eigin ákvarðanir í stjórnmálum.