Innlent

Metfjöldi á visir.is

Fjöldi innlita á Vísi eykst stöðugt og síðastliðin vika var metvika á Vísi skv. tölum Samræmdra vefmælingar. Þá náði innlitafjöldinn 1.220.000 innlitum hjá þeim 208.382 gestum sem heimsóttu Vísi. Til marks um þá stórsókn sem Vísir hefur verið í þá hafa bæði innlit og síðuflettingar tvöfaldast á síðustu níu mánuðum, eins og sjá má á línuritinu hér til hliðar.

Kemur margt til. Fréttaþjónusta hefur verið bætt til muna á árinu og auk þess hefur tilkoma Vísis VefTV, Vísis Radio og nú síðast Vísis VefBlöð stóraukið notagildi visir.is og þar af leiðandi aðsókn. Vegur þar þungt tilkoma fréttastöðvarinnar NFS. Fréttavakt NFS eykur stöðugt fréttaskrif sín inn á Vísi og einnig hefur mikill vöxtur verið í þjónustu NFS í VefTV Vísis. Þar er bæði hægt að horfa á stöðina í beinni útsendingu og nálgast upptökur af öllum helstu þáttum stöðvarinnar. Notkun á Vísir VefTV til að nálgast fjölbreytt sjónvarpsefni eykst stöðugt og hefur NFS t.a.m. tvöfaldað efnisframboð þar síðustu vikum, sem leitt hefur til þess að gestafjöldinn komst í rúmlega 23 þúsund í liðinni viku og fer ört vaxandi.

Allir prentmiðlar hjá 365 á Vísir VefBlöð

Nýjasta viðbótin, Vísir VefBlöð, hefur nú þegar vakið enn frekar áhuga á visir.is en þar er í fyrsta sinn hægt að nálgast alla prentmiðla sem gefnir eru út af 365 á einum og sama stað á netinu á aðgengilegu PDF formi. Fram að þessu hefur aðeins verið hægt að nálgast Fréttablaðið og fylgiblöð þess en nú stendur einnig til boða að lesa DV, Hér&Nú, Birtu og Sirkus frítt á Vísi á pdf formi - sem hentugt er til útprentunar ef vill.

Breytilegt er hvenær blöðin verða aðgengileg og er það háð því hvort um fríblað eða áskriftarblað er að ræða. Fríblöðin Fréttablaðið, Markaðurinn, Allt-Atvinna, Allt-Fasteignir og Birta eru aðgengileg á útgáfudegi en meginreglan með áskriftarblöðin er sú að þau verða aðgengileg á Vísi VefBlöð um leið og næsta tölublað á eftir er komið út. Þannig verður DV framvegis fáanlegt degi eftir útgáfu á pdf formi á Vísi VefBlöð og tímaritin Hér & Nú og Sirkus viku eftir útgáfu, en þau koma út á föstudögum. Öll verða þessi blöð og tímarit svo aðgengileg langt aftur í tímann - rétt eins og Fréttablaðið hefur verið hingað til.

Með þessu verður allt helsta efnið sem 365 framleiðir á degi hverjum, 365 daga ársins, aðgengilegt með einum eða öðrum hætti á Vísi; dagblöð og tímarit undir Vísir VefBlöð, útvarpsstöðvar undir Vísir VefRadio og sjónvarpsstöðvar undir Vísir VefTV. Miðlarnir sem hægt er að nálgast á visir.is eru því sem hér segir:

VefBlöð: Fréttablaðið, Markaðurinn, Allt-Atvinna, Allt-Fasteignir, Birta,

DV, Hér & Nú og Sirkus.

VefRadio: Bylgjan, Létt, FM957, Talstöðin, Xið.

VefTV: NFS, Stöð 2, Sýn, Sirkus, PoppTV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×