Innlent

Vestmannaeyjar og Reykjanesbær verst stöddu bæjarfélögin

Vestmannaeyjar og Reykjanesbær eru verst stöddu bæjarfélög landsins, en Bessastaðahreppur og Akranes þau best stöddu. Þetta sést þegar rýnt er í ársreikninga sveitarfélaganna.

Akraness er meðal þeirra bæjarfélaga sem mest getur gert fyrir íbúa sína. Vestmannaeyjar eru hins vegar í þeim hópi sem minnsta burði hafa til að þjóna þegnum sínum. Þetta sést þegar skoðað er hve mikla fjármuni sveitarfélögin hafa á hvern íbúa til ráðstöfunar til annarra hluta en rekstrar. Verst stöddu sveitarfélög landsins eru þar með neikvæða tölu en þau eru flest fámennir sveitahreppar. Þau eru Broddaneshreppur, og Fáskrúðsfjarðarhreppur, bæði með yfir 100 þúsund króna mínus á hvern íbúa í veltufé frá rekstri, Höfðahreppur á Skagaströnd, Torfalækjarhreppur, Bláskógabyggð og Helgafellssveit.

Sex bæjarfélög eru með neikvæða tölu. Þar eru Vestmannaeyjar og Reykjanesbær verst stödd en síðan koma Blönduós, Fjarðabyggð, Rangárþing ytra og Hveragerði. En skoðum best stöddu sveitarfélögin. Þar raða sér sveitahreppar í efstu sæti, Fljótsdalshreppur, sem nýtur Kárahnjúkavirkjunar, og Grímsnes- og Grafningshreppur með sín sumarbústaðalönd, tróna á toppnum en síðan koma Mjóafjarðarhreppur, Hvítársíðuhreppur, Akrahreppur og Kolbeinsstaðahreppur. Þegar best stöddu bæjarfélögin eru skoðuð er áberandi að flest þeirra eru í kringum Reykjavík. Þar er Bessastaðahreppur á Álftanesi efstur á blaði en síðan koma Akranes, Fljótsdalshérað, Grindavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær , Mosfellsbær og Ölfus.

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna fyrir helgi kom glögglega fram gríðarlegur munur á afkomu og fjárhagslegri getu sveitarfélaga. Bæjarstjórinn á Ísafirði segir að jafna þurfi tekjum betur milli sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×