Innlent

Borguðu fyrir eiginkonurnar

"Fulltrúar Akraneskaupstaðar fóru á sínum forsendum og bæjarráðsmenn borguðu sjálfir fyrir eiginkonur sínar," segir Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar. Bæjarráðsfulltrúarnir Guðmundur Páll Jónsson, Gísli Gíslason, Sveinn Kristjánsson og Gunnar Sigurðsson heimsóttu borgarstjórann í Leeds á Englandi, William Hyde, í lok síðasta mánaðar.

Með í ferðinni voru Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, og Sturlaugur Haraldsson sölustjóri. Borgarstjórinn í Leeds fór með alla sendinefndina að borða á veitingastað sem kaupir um 70 tonn af sjófrystum flökum úr skipum HB Granda, þeim Höfrungi III og Helgu Maríu. Þar borðuðu menn fisk og franskar að enskum sið.

"Okkur var síðan boðið í innstu vé hjá borgarstjóranum og þar kynntum við mikilvægi sjómennsku og fiskveiða á Akranesi. Með þessu leggjum við okkar skerf til þess að efla þetta mikilvæga starf HB Granda," segir Guðmundur Páll bæjarstjóri.

Hann var áður starfsmannastjóri hjá HB Granda.

"Við sáum Manchester United leika gegn Tottenham og buðum sir Alex Ferguson að vera viðstaddan vígslu á íþróttahúsi sem tekið verður í notkun á Akranesi í mars. Hann sagði það ekki útilokað að hann kæmi," bætir Guðmundur við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×