Rafael Benitez, stjóri Liverpool, var ánægður með sigur sinna manna á slöku liði Anderlecht í Meistaradeildinni í gærkvöldi og þótti sérstök ástæða til að minnast á frammistöðu landa síns Fernando Morientes sem skoraði fyrsta mark sitt í langan tíma fyrir Liverpool.
"Það var frábært að fá þessi mörk og öll stigin í leiknum. Nú vantar okkur bara eitt stig í viðbót til að fara áfram í keppninni, en það verður erfitt að mæta Betis. Þeir eru með öskufljóta framherja og leika vel á útivelli," sagði Benitez sem samgladdist landa sínum innilega.
"Morientes náði að skora fyrir okkur í kvöld og ég þykist vita að þetta var afar mikilvægt mark fyrir hann. Þetta byggir upp sjálfstraust hans fyrir komandi leiki," sagði stjórinn ánægður.