Harewood heppinn að fá að byrja

Alan Pardew, stjóri West Ham, hefur viðurkennt að hann hafi verið lengi að velta því fyrir sér hvort hann ætti að velja Marlon Harewood í byrjunarlið West Ham fyrir leikinn gegn Aston Villa í gærkvöld, en eins og kom á daginn, átti stjórinn ekki eftir að sjá eftir því. "Ég verð að viðurkenna að ég var mikið að hugsa um að hafa hann á bekknum. Marlon er fullur af sjálfstrausti, en hefur stundum áhyggjur af leik sínum. Hann átti ekki sérstaklega góðan leik gegn Bolton og fór illa með færin, en hann var frábær í kvöld. Hann barðist svo vel að hann var alveg búinn þegar hann kom út af," sagði Pardew um hetju West Ham.