Innlent

Taki þátt í rekstri flugvallarins

Davíð Oddsson utanríkisráðherra ætlar að semja um það við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Íslendingar taki meiri þátt í kostnaði við rekstur Keflavíkurflugvallar. Davíð Oddsson utanríkisráðherra mun hitta Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á þriðjudaginn í næstu viku. Hann vék að þeim fundi í munnlegri skýrslu sinni um utanríkismál sem hann flutti á Alþingi fyrir hádegi og sagði m.a. að íslensk stjórnvöld hefðu ekki hreyft neinum andmælum við eðlilegri aðlögun Varnarliðsins við breyttum aðstæðum frá lokum Kalda stríðsins. Sú aðlögun felst t.a.m. verulegum samdrætti í búnaði og fækkun liðsmanna. Davíð sagði hins vegar ríka áherslu hafa verið lagða á að hér á landi þurfi að vera varnarviðbúnaður.  Davíð sagði ljóst að mikill vöxtur hafi verið í farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll sem valdi því að stjórnvöld eru reiðubúin að semja um það við Bandaríkjamenn, hvernig Íslendingar geti tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur hans. Það sé meðal þess sem hann hyggst ræða við Colin Powell á fundi þeirra 16. nóvember nk. „Tilgangur þess fundar, sem er haldinn í framhaldi af fundi mínum með Bandaríkjaforseta í júlí síðastliðnum, er að koma viðræðum í fastan farveg og eyða óvissu sem uppi hefur verið um framtíð Varnarliðsins,“ sagði utanríkisráðherra. En hver er lágmarksviðbúnaður og hvað kemur í staðinn fyrir herinn? spurði Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Þegar komi að öryggismálum þurfi að kortleggja nákvæmlega hvar við getum borið niður; hvað það kosti og hvað það þýði: „Þarf að setja Íslendinga undir vopn? Og ef svo er, í hve ríkum mæli? Öryggisverðir hljóta þeir að kallast því enginn vilji er hjá þjóðinni að stofna hér almennan íslenskan her, eða hvað?“ spurði Guðmundur Árni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×