Nítján undanþágubeiðnum hafnað

Aðeins ein undanþágubeiðni var samþykkt á fundi undanþágunefndar kennara og sveitarfélaga í gærkvöldi. Nítján var hafnað og afgreiðslu á einni var frestað vegna skorts á upplýsingum. Undanþága var samþykkt fyrir sérdeild Langholtsskóla fyrir einhverf börn og frestað var beiðni frá Hafralækjarskóla. Öllu öðru var synjað. Nýr samningafundur í kennaradeilunni hefur verið boðaður á mánudag þannig að líklega fer næsta vika líka í súginn hjá nemendum.