Hin 16 ára Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir gleymir leiknum varla í bráð. Hún fór á kostum, skoraði þrennu og fiskaði auk þess vítaspyrnu. Þetta var aðeins fimmti leikur Hildigunnar í efstu deild en það var ekki að sjá á frammistöðu hennar.
Hildigunnur kom Stjörnunni yfir á 5. mínútu eftir góðan samleik við Sigrúnu Ellu Einarsdóttur. Þetta var fyrsta mark Garðbæinga síðan 22. maí.
Á 16. mínútu jafnaði Arna Eiríksdóttir metin eftir aukaspyrnu Evu Rutar Ásþórsdóttur. Eftir jöfnunarmarkið var HK/Víkingur með öll völd á vellinum.
Það var því þvert gegn gangi leiksins þegar Hildigunnur kom Stjörnunni aftur yfir á 31. mínútu. Markið var keimlíkt því fyrsta, Hildigunnur fékk boltann inn fyrir vörn HK/Víkings frá Birnu Jóhannsdóttur og kláraði færið af yfirvegun.
Sex mínútum síðar skoraði Jasmín Erla Ingadóttir með skoti fyrir utan vítateig sem fór af varnarmanni og í netið.
Rakel Logadóttir, þjálfari HK/Víkings, gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik og hennar konur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti.
Brynhildur Vala Björnsdóttir, önnur þeirra sem komu inn á í hálfleik, minnkaði muninn í 2-3 með skoti fyrir utan teig sem fór af varnarmanni og inn á 47. mínútu.
Vendipunktur leiksins kom á 60. mínútu þegar Tinna Óðinsdóttir, fyrirliði HK/Víkings, braut á Hildigunni sem var sloppin í gegn. Dómari leiksins, Gunnar Freyr Róbertsson, dæmdi vítaspyrnu sem Jasmín skoraði af öryggi úr, sitt annað mark og fjórða mark Stjörnunnar.
Eftir þetta var allur vindur úr heimakonum og gestirnir óðu í færum. Audrey Rose Baldwin varði nokkrum sinnum úr dauðafærum frá leikmönnum Stjörnunnar en hún kom engum vörnum við þegar Hildigunnur skoraði sitt þriðja mark á 71. mínútu og kórónaði frábæra frammistöðu sína.
Með sigrinum komst Stjarnan upp í 5. sæti deildarinnar en HK/Víkingur er í því tíunda og neðsta.
Af hverju vann Stjarnan?
Fyrir leikinn talaði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, um að Garðbæingar hefðu breytt áherslunum í sóknarleiknum og lagt kapp á að koma boltanum hratt fram völlinn. Og það heppnaðist fullkomlega.
Þetta var ekki alltaf áferðarfallegt en setti vörn HK/Víkings undir stöðuga pressu sem hún réði ekki við. Heimakonur héldu boltanum vel og voru þolinmóðar í sinni sóknaruppbyggingu en sóknir gestanna úr Garðabænum voru hættulegri. Mörkin urðu fimm talsins og hefðu svo sannarlega getað orðið fleiri. Markastífla Stjörnunnar brast því með látum í kvöld.
Varnarleikur Stjörnunnar var líka mun betri en varnarleikur HK/Víkings. Stjörnukonur spiluðu af skynsemi og eftir að þær komust í 2-4 var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda.
Hverjar stóðu upp úr?
Hildigunnur stimplaði sig inn í Pepsi Max-deildina með látum, þremur mörkum og frábærri alhiða frammistöðu. Jasmín var öflug á miðjunni og skoraði tvö mörk. Kantmennirnir Sigrún Ella og Shameeka Fishley voru líka síógnandi og Birna sýndi góða takta.
Þrátt fyrir að fá á sig fimm mörk var Audrey besti leikmaður HK/Víkings og sá til þess að liðið fékk ekki enn stærri skell.
Hvað gekk illa?
HK/Víkingur lék nokkuð vel í 60 mínútur en varnarleikurinn var aldrei í lagi og lagaðist ekkert þrátt fyrir tilfærslur og skiptingar í seinni hálfleik.
HK/Víkingur hefur fengið á sig flest mörk allra liða í deildinni, 28 talsins, og vörnin verður að styrkjast ef liðið á að eiga möguleika á að halda sér uppi.
Hvað gerist næst?
Næstu tveir leikir HK/Víkings eru á útivelli; gegn Selfossi eftir viku og gegn Val föstudaginn 9. ágúst.
Stjarnan fær Val í heimsókn eftir viku og föstudaginn 9. ágúst mæta Stjörnukonur Fylkiskonum í Árbænum.

Hin 16 ára Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði þrennu þegar Stjarnan vann 2-5 sigur á HK/Víkingi í kvöld.
„Þetta var mikilvægur sigur fyrir liðið og gott að fá þrjú stig. Við höldum bara áfram. Liðsheildin var góð og allir voru tilbúnir í leikinn,“ sagði Hildigunnur í samtali við Vísi eftir leik.
Mörkin þrjú í leiknum í kvöld voru hennar fyrstu í efstu deild. Raunar var þetta aðeins fimmti deildarleikur Hildigunnar á ferlinum.
„Ég er bara mjög ánægð,“ sagði Hildigunnur hógvær.
Fyrir leikinn í kvöld hafði Stjarnan ekki unnið skorað mark í tvo mánuði og þ.a.l. ekki unnið leik á þeim tíma.
„Þetta gefur okkur mikið sjálfstraust og við ætlum bara að byggja ofan á þetta,“ sagði Hildigunnur að lokum.

Rakel Logadóttir, þjálfari HK/Víkings, var ósátt með tapið fyrir Stjörnunni í Víkinni í kvöld.
„Þetta eru mjög mikil vonbrigði. Við ætluðum okkur að gera miklu betur og vinna þennan leik. En það gekk ekki eftir,“ sagði Rakel.
Þrátt fyrir fína spilamennsku var HK/Víkingur tveimur mörkum undir í hálfleik, 1-3.
„Við spiluðum ágætlega í fyrri hálfleik en duttum svo niður. Ég held að þessi þriðji leikur á viku hafi haft smá áhrif,“ sagði Rakel.
HK/Víkingur minnkaði muninn í 2-3 í upphafi seinni hálfleiks. En eftir fjórða mark Stjörnunnar var allur vindur úr heimakonum.
„Við gerðum okkur sekar um varnarmistök sem við þurfum að skoða og laga,“ sagði Rakel.
HK/Víkingur er á botni Pepsi Max-deildarinnar með sjö stig og hefur ekki unnið leik í tæpa tvo mánuði. Þrátt fyrir slæmt gengi að undanförnu horfir Rakel björtum augum fram á veginn.
„Við höfum fulla trú á þessu og höldum bara áfram. Við tökum þetta á jákvæðninni. Það eru bara þrjú stig upp í öruggt sæti,“ sagði Rakel að lokum.