92,36 prósent þeirra sem greiddu atkvæði um nýjan kjarasamning SFR - Stéttarfélags í almannaþjónustu og ríkisins samþykktu hann í atkvæðagreiðslu sem lauk um hádegi í dag.
SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu hefur því samþykkt nýjan kjarasamning sem gerður var við ríkið þannn 28. október. Alls greiddu 2396 atkvæði eða rúmlega 60% félagsmanna. 2213 sögðu já, 139 sögðu nei og 44 skiluðu auðu.
Félagsmenn SFR, Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) og Landsambands lögreglumanna áttu í langvinnri kjaradeilu við ríkið fyrr í vetur og fóru félagsmenn SFR og SLFÍ í verkföll. Þann 28. október var þó skrifað undir nýja samninga sem bæði SFR og SLFÍ hafa nú skrifað undir.
Atkvæðagreiðsla stendur yfir meðal félagasmanna Landsambands lögreglumanna og má reikna með að niðurstöður þeirra kosninga liggi fyrir á miðvikudaginn.
