Handbolti

„Ég hugsa að þetta sé EM-met“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alfreð fagnar með sínum mönnum í seinni hálfleik eftir enn eitt varða skotið hjá vörninni.
Alfreð fagnar með sínum mönnum í seinni hálfleik eftir enn eitt varða skotið hjá vörninni. EPA/Bo Amstrup DENMARK OUT

„Við hefðum klárlega getað unnið stærri sigur“ sagði Alfreð Gíslason eftir að hafa lagt Króatana hans Dags Sigurðssonar að velli í undanúrslitum EM í handbolta.

Leiknum lauk með 31-28 sigri Þýskalands en sigurinn hefði sannarlega getað verið stærri ef Þjóðverjar hefðu haldið einbeitingu með sjö marka forystu en ekki farið að kasta boltanum frá sér. Það skiptir Alfreð þó á endanum ekki öllu máli.

„Þegar uppi er staðið, er ég bara stoltur“ sagði Alfreð sem gæti á sunnudaginn unnið sín fyrstu gullverðlaun sem þjálfari Þýskalands.

Króatar lentu í miklum vandræðum í seinni hálfleik. Þeim gekk ekkert að brjótast í gegn og þegar þeir skutu fyrir utan var þýska hávörnin mætt til að verja það. Línumanninum Justus Fischer tókst meira að segja, í einni sókninni, að verja boltann þrisvar sinnum.

„Ég hugsa að þetta sé EM-met. Þrisvar í sömu sókninni. Það er ótrúleg varnarframmistaða. Þeir stóðu bara fyrir öllu“ sagði Alfreð.

„Við vissum frá upphafi að þetta yrði mjög, mjög erfitt mót. Ef við ættum að eiga einhvern séns á að komast í úrslitaleikinn þyrftum við að finna alvöru flæði“ sagði Julian Köster. Þýskaland gerði það svo sannarlega í dag, og hefur í raun gert það síðan liðið missteig sig gegn Serbíu í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×