Innlent

Það sé beinlýnis villandi að benda á olíu­fé­lögin

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Magnús Hafliðason er framkvæmdastjóri N1.
Magnús Hafliðason er framkvæmdastjóri N1. vísir/sigurjón

„Það er beinlínis villandi fyrir neytendur að benda á olíufélögin sem sökudólg fyrir aukinni verðbólgu. Ekki aðeins var öllu olíugjaldinu skilað til neytenda heldur hefur álagning á eldsneyti N1 haldist óbreytt frá síðasta ári.“

Þetta segir Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1, í yfirlýsingu sem send var fréttastofu í kjölfar frétta um aukna verðbólgu. Verðbólga mælist nú 5,2 prósent og hefur ekki verið meiri frá því í september 2024. Það sem hafði mest áhrif á vísitölu neysluverðs voru breytingar á vörugjöldum bifreiða og upptaka nýs kílómetragjalds.

Daði Már Kristófersson, fjármála og efnahagsráðherra, hefur vísað því á bug að aukningin skýrist af gjaldhækkunum ríkisstjórnarinnar og sagði olíufélög og bílaumboð bera ábyrgðina vegna aukinnar álagningar.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að samkvæmt nýrri samantekt ASÍ hafi álagning olíufélaganna aldrei verið hærri en núna. Eldsneytisverð lækkaði um tæplega 97 kronur við áramótin þegar kílómetragjaldið tók gildi. Að mati ASÍ hefði það mátt lækka enn frekar. 

Forsætisráðherra tók undir málflutning Daða í dag að loknum ríkisstjórnarfundi. Þau hafi búist verið frekari lækkunum á eldsneytisverði samfara því að eldsneytisgjöld og vörugjöld á bensíni voru felld niður um áramótin. Olíufélögin eigi að passa sig.

„Þannig að ég set að hluta til ábyrgð á olíufélögin hvað það varðar. Þau þurfa að passa sig þegar kemur að verðlagningu. Ég veit að þau finna hitann af því og ég treysti því að þau geri þetta með sanngjörnum hætt,“ sagði Kristrún.

Magnús segir í yfirlýsingu sinni að N1 hafi lækkað verð á bensíni og dísilolíu meira en sem nemur niðurfellingu olíugjaldsins. 

„Var þessi lækkun umfram það sem FÍB hafði gert ráð fyrir í sínum útreikningum, sem sýnir fram á að samkeppnin á eldsneytismarkaði á Íslandi er virk. N1 gekk því lengra en efni stóð til og skilaði öllum ávinningnum til viðskiptavina - þvert á það sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingu Magnúsar.

Hann bendir á að bensínverð hafi lækkað um 27,4 prósent á milli mánuða í verðbólgumælingum Hagstofu Íslands. Hann ítrekar að álagning hjá N1 hafi haldist óbreytt frá síðasta ári.

„Daglegt verkefni þjónustufyrirtækja, eins og N1, er að halda aftur af verðhækkunum með hagræðingu, nýjum lausnum og útsjónarsemi í innkaupum.Starfsfólk N1 finnur til ábyrgðar í baráttunni gegn verðbólgu og fyrir auknum stöðugleika. Enginn árangur næst í þeirri baráttu með órökstuddum ásökunum ráðamanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×