Skoðun

Að læra af for­tíðinni

Sigurður Helgi Pálmason skrifar

Þegar ég tók mín fyrstu skref á Evrópuráðsþinginu fljótlega eftir síðustu kosningar fann ég fljótt að rödd mín á þessum vettvangi var ómótuð og oft á tíðum óörugg. Það tekur tíma að kynna sér reglur, hefðir og ferla sem hafa mótast allt frá stofnun þingsins fyrir rúmum sjötíu árum. Á vettvangi sem þessum er auðvelt að finna fyrir smæð sinni , bæði persónulega og pólitískt.

Evrópuráðsþingið er vettvangur þingmanna yfir fjörutíu ríkja Evrópu og áheyrnarfulltrúa nokkurra annara ríkja. Á Evrópuráðsþinginu eru grunnstoðir lýðræðis til umfjöllunar: Mannréttindi, réttarríkið og lýðræðislegir stjórnarhættir. Í þingsalnum mætast ólík sjónarmið, reynsla og pólitískar áherslur. Markmiðið er hins vegar sameiginlegt; að halda þessum grundvallargildum á lofti, sérstaklega þegar á reynir og það hefur svo sannarlega oft reynt á þessi grunngildi.

Það skiptir máli að læra af sögunni, þekkja þær áskoranir sem mætt hafa lýðræðisríkjum allt frá stofnun Evrópuráðsins og þings þess. Þar má leita leiðsagnar og styrks hjá þeim sem áður mótuðu íslenska utanríkisstefnu. í því samhengi má minnast málflutnings Bjarna Benediktssonar eldri og þáverandi utanríkisráðherra.

Í útvarpsávarpi Bjarna árið 1950 eftir fyrstu skref hans í Evrópuráðinu lagði hann áherslu á að alþjóðlegt samstarf væri smáríkjum ekki aðeins gagnlegt, heldur nauðsynlegt. Smáríki gætu ekki leyft sér einangrun. Þau þyrftu að vera sýnileg, virk og meðvituð um eigið hlutverk á alþjóðavettvangi. Orð hans undirstrika mikilvægi þátttöku okkar í alþjóðastofnunum þegar mikið liggur við og jafnvel þegar áhrifin eru ekki alltaf mælanleg í skjótri niðurstöðu.

Í þessu samhengi flutti ég nýverið ræðu á Evrópuráðsþinginu þar sem ég fjallaði um stöðuna á Grænlandi. Í því umhverfi sem við erum í dag fennir fljótt yfir fyrirsagnir. Þegar Grænland verður ekki lengur í uppslætti fjölmiðla er enn brýnt að staldra við og spyrja sig hvernig Grænlendingum líður eftir að hafa orðið fyrir stórfelldum ágangi stórveldis. Óvissan sem skapast hverfur ekki jafn hratt og fyrirsagnirnar, heldur situr eftir hjá fólkinu sem býr við afleiðingarnar.

Einmitt þar getur Evrópuráðsþingið sannað gildi sitt. Störf þingsins snúast ekki aðeins um mikilvægar ályktanir og ræður í þingsal, heldur einnig um samtöl og samskipti utan dagskrár. Í þessari þingfundarviku og á fyrri fundum hef ég átt ítarleg og hreinskiptin samtöl við þingfulltrúa frá Danmörku, öðrum Norðurlöndum og víðar að úr Evrópu. Þessi samtöl hafa styrkt umræðuna og skerpt á sameiginlegum áherslum. Hjálpað okkur við að tala einni röddu um stöðuna og veitt innsýn sem erfitt er að fá með því einu að lesa skýrslur eða fréttir. Þessi samtöl og samvinna breyta fjarlægum alþjóðamálum í persónuleg umræðuefni þar sem reynsla, áhyggjur og ábyrgð styrkja samstöðuna.

Það er ekki sjálfgefið að Ísland hafi rödd á alþjóðavettvangi. Rödd Íslands eins og annarra ríkja mótast og styrkist með tímanum. Reynsla verður til með samtölum, með því að hlusta ekki síður en að tala. Í meðvitaðri ákvörðun um að vera til staðar, jafnvel þegar athyglin hefur færst annað.

Á vettvangi Evrópuráðsþingsins sæki ég styrk frá sögunni. Frá þeim gildum sem Evrópuráðið var stofnað til að verja og í skilning á því hlutverki sem smáríki gegna í alþjóðlegu samstarfi.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins og varaforseti Evrópuráðsþingsins




Skoðun

Sjá meira


×