Handbolti

„Tvö best spilandi lið heims að mætast“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Snorri Steinn og Nikolaj Jakobsen eiga eftir að skemmta sér vel á morgun.
Snorri Steinn og Nikolaj Jakobsen eiga eftir að skemmta sér vel á morgun. vísir / vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson og Nikolaj Jakobsen hrósuðu hvorum öðrum í hástert fyrir handboltann sem Danmörk og Ísland spila, á blaðamannafundi fyrir undanúrslitaleik liðanna á EM annað kvöld.

Þjálfararnir virtust hinir mestu mátar og höfðu ekkert neikvætt um lið hvors annars að segja. Nikolaj Jakobsen, þjálfari Danmerkur, var spurður hvort hann væri spenntur eða stressaður fyrir leiknum á morgun og nýtti tækifærið til að hrósa strákunum okkar.

„Ég er mjög spenntur, sem handboltaþjálfari og handboltaunnandi, þá eru að mínu mati tvö best spilandi lið heims að mætast. Ég er hrifinn af því hvernig Ísland spilar, ég er hrifinn af leikmönnunum. Þeir spila mjög skemmtilegan og góðan handbolta sem mér finnst gaman að horfa á. Mér finnst líka mjög gaman að horfa á mitt lið, þannig að þetta verður frábær upplifun annað kvöld fyrir alla sem elska handbolta“ sagði Nikolaj.

Klippa: Landsliðsþjálfararnir hrósa hvorum öðrum í hástert

Snorri Steinn svaraði um hæl og sagðist líka hafa mjög gaman af því að horfa á danska landsliðið spila, en vildi ekki gefa upp hvernig hann sæi fyrir sér að vinna leikinn.

„Í fyrsta lagi, takk fyrir hrósið Nikolai. Mér finnst líka mjög gaman að horfa á danska liðið, mér finnst þeir mjög góðir“ sagði Snorri Steinn.

„Varðandi leikinn á morgun, þá erum við enn að útbúa leikplanið. Og þó það væri klárt þá myndi ég ekki segja ykkur það. En það vita allir að við erum að spila við besta lið heims yfir síðustu ár. Þeir verða á heimavelli þannig að við búumst við mjög erfiðum leik, en ég held að við höfum sýnt á þessu móti og síðustu ár að við séum að stefna í rétt. Við höfum spilað vel á þessu móti og höfum mikla trú á okkur. Þó allir séu meðvitaðir um að við þurfum topp frammistöðu til að vinna Danmörku á morgun“ sagði Snorri að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×