Skoðun

Á­hrif mín á dag­legt líf og störf Stefáns Eiríks­sonar

Eyrún Magnúsdóttir skrifar

Smellubeitur eru eitt af því sem er hvað verst liðið af öllu sem birtist í fjölmiðlum á netinu. Fyrirsögnin hér að ofan er samt ekki smellubeita, ekki beint allavega.

Beita er þegar fyrirsögnin lokkar þig að efni sem síðan annaðhvort reynist ekki sá fengur sem hún gaf vonir um eða fjallar um eitthvað allt annað en gefið er í skyn. Þessi grein fjallar þó sannarlega um það sem birtist í fyrirsögninni, um mig, um meinta ríkisstyrkta fjölmiðla og um RÚV, sem Stefán Eiríksson stýrir. Þau áhrif mín sem vísað er til eru í formi peninga sem ég inni af hendi hvort sem mér líkar betur eða verr.

Nefskattur er orð sem ég lærði ekki fyrr en ég var orðin fullorðin. Ég hafði oft heyrt þetta, en vissi ekki almennilega hvað orðið þýddi fyrr en vel komin á þrítugsaldur. Nefskattur er skattur sem allir greiða jafnt, en er ekki lagður á í hlutfalli við tekjur.

Almannaútvarp okkar Íslendinga er fjármagnað að stærstum hluta með nefskatti – útvarpsgjaldinu. Ríkið millifærir rúma sex milljarða króna árlega til RÚV eftir að búið er að safna saman nefskattinum úr vasa einstaklinga, stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja.

Minnihluti fjármuna sem kemur inn á bankareikning RÚV, um þrír milljarðar króna á ári, eru aðrar tekjur sem RÚV hefur heimild til að afla á borð við auglýsingar og kostanir, þótt mun meira sé rætt um þennan hluta almennt.

En nefskatturinn er í raun dásamlegt fyrirbæri fyrir RÚV og Stefán Eiríksson. Þessara peninga þarf RÚV ekki að afla með tilheyrandi fyrirhöfn heldur bara bíða eftir að þeir birtist.

Og þá kem ég að mínu framlagi – mínum áhrifum á líf og störf Stefáns. Á þessu ári legg ég nefnilega til þrefalt útvarpsgjald! Þó er ég ekki stórlax í neinum skilningi. Ég greiði útvarpsgjald sem einstaklingur, ég á lítið samlagsfélag sem ég stofnaði utan um sjálfstæð verkefni og svo stofnaði ég Gímaldið ehf. utan um nýjan áskriftadrifinn fjölmiðil sem heitir Gímaldið.

Þrjár kennitölur = þrefalt útvarpsgjald.

Vegna minna starfa og míns framtaks fær ríkið/RÚV 66.600 krónur á þessu ári. Ekkert að þakka, Stefán!

Litli fjölmiðillinn Gímaldið vinnur nú að því að gera sig gildandi. Við höfum fjallað um pólitík, heilbrigðismál, velferð, innflytjendamál, varnarmál, góða og slæma nágranna, heilabilunarsjúkdóma, tóbaksrisa og sitthvað fleira á þeim tæpu þrem mánuðum sem við höfum verið í loftinu. Við sögðum frétt af því í desember að starfsmaður Útlendingastofnunar hefði birt nöfn skjólstæðinga á Instagram. Umfjöllun sem allir fréttamiðlar tóku upp og greindu frá, líka RÚV.

Nýjungar í miðlun fréttatengds efnis eru okkur ofarlega í huga og okkur langar að ná lengra með því að þróa okkur tæknilega, finna nýja hópa lesenda og áheyrenda, leiða samtal, setja mikilvæg mál á dagskrá, brjótast í gegnum hávaðann og hið stöðuga upplýsingaflóð með því að bjóða úrvalsefni bæði í texta og hljóði. Allt þetta án þess að vera mjög leiðinleg. Og helst auðvitað án þess að þurfa að vera í sjálfboðavinnu um aldur og ævi.

Þetta kostar sitt og þótt framlag mitt og Gímaldsins til starfa Stefáns Eiríkssonar og kollega minna í Efstaleitinu sé ekki stærsti kostnaðarliður Gímaldsins, þá þarf samt að afla tekna til að eiga fyrir nefskattinum.

Til að standa straum af þreföldu útvarpsgjaldi með öllum kostnaði sem fylgir þarf sem dæmi að selja um það bil fjórar heilsársáskriftir að Gímaldinu. Ef ég væri Dominos þyrfti ég að selja um 88 þriðjudagstilboð, svo þekktara dæmi sé tekið. Ólíkt nefskatti þá rúlla tekjurnar ekki inn á reikning fyrirhafnarlaust heldur þarf að vinna að því að afla þeirra og kosta töluverðu fé til. Lítill fjölmiðill þarf að hafa burði til að sækja styrki í ýmsa sjóði, leitast eftir stuðningi fyrirtækja, selja áskriftir eins og vindurinn, selja auglýsingar og reyna að vekja athygli á sér í öðrum stærri fjölmiðlum líka. Hæ!

Á Gímaldinu ætlum að reyna að keyra á áskriftum, frekar en auglýsingum og smellum. Það er leið sem margir fjölmiðlar fara í auknum mæli, ekki síst á Norðurlöndum. Með því að leggja áherslu á áskriftir er miðillinn síður háður miklum sveiflum og getur, þegar fram líða stundir, byggt upp sterkt samband við áskrifendur. Ekki eins „þægilegar“ tekjur og nefskattur reyndar, því við skikkum auðvitað engan til að greiða, en mögulega það næstbesta í stöðunni. Fólk tekur þannig upplýsta og meðvitaða ákvörðun um að gerast áskrifendur. Og við erum óendanlega þakklát okkar áskrifendum fyrir þeirra þátt í að byggja upp fjölmiðil.

Ef nefskatturinn, til dæmis bara úr einu litlu póstnúmeri, rynni nú óvart til okkar en ekki RÚV, þá væri fjárhagurinn í toppstandi og hægt væri að byggja upp stöndugan fjölmiðil. En við lifum ekki í draumaheimi og höldum því áfram að hlaupa hratt, skúbba, bæta okkur og byggja upp miðil sem lýsir upp samfélagið. Þrefaldi nefskatturinn minn er svo sem alveg ágætlega settur hjá Stefáni og félögum í Efstaleiti. En staðan á fjölmiðlamarkaði mætti vissulega vera sanngjarnari.

Stuðningur við alla aðra fjölmiðla einn fimmtándi af nefskattinum

Það gleymist stundum í umræðunni um rekstur fjölmiðla að engir fjölmiðlastyrkir komast með tærnar þar sem nefskatturinn hefur hælana. Á undanförnum árum hafa fjölmiðlar fengið svokallaða styrki, sem eru þó í raun endurgreiddur ritstjórnarkostnaður sem fellur til vegna vinnslu frétta og fréttatengds efnis. Á milli 20 og 30 fjölmiðlar hafa árlega skipt með sér upphæð sem nemur um einum fimmtánda af nefskattinum.

Fjölmiðlarnir, sem þá eru stundum uppnefndir og kallaðir ríkisstyrktir, þurfa eftir sem áður að leggja út í kostnað, krossa svo fingur og vona að fá hluta kostnaðarins endurgreiddan meira en ári eftir að hann fellur til. Hlutfall endurgreiðslu hefur verið sett fram sem hámark og það er einnig hámark á þeim potti sem er til umráða hverju sinni. Það þýðir að upphæð endurgreiðslu er óljós alveg fram á síðustu stundu.

Að óbreyttu þarf Gímaldið að sitja hjá í næstu úthlutun, því í tilviki nýrra fjölmiðla hefur verið gerð krafa um að miðill hafi verið starfandi í heilt ár áður en hægt er að sækja um slíka styrki. Gímaldið getur því mögulega sótt um síðla árs 2027 að fá endurgreiddan kostnað vegna rekstrarársins 2026. Ef við uppfyllum skilyrði – sem við vitum ekki enn hver verða. Um þessar mundir er unnið að útfærslu á nýrri fjölmiðlastefnu og stuðningi við fjölmiðla í ráðuneyti menningar, nýsköpunar og háskóla.

Kannski finnast lausnir í gegnum þá vinnu á því hvernig best verði farið að því að efla blaðamennsku í landinu. En þangað til það kemur í ljós greiði ég minn þrefalda nefskatt til Stefáns eins og svo margir aðrir. Ég mun þó fylgjast spennt með þegar málefni fjölmiðla verða tekin fyrir nú á vorþingi, vonandi allt saman í beinni á RÚV!

Höfundur er blaðamaður og útgefandi á Gimaldid.is.




Skoðun

Sjá meira


×