Viðskipti innlent

Verð­bólga eykst um­fram svart­sýnustu spár

Árni Sæberg skrifar
Húsnæðisverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs.
Húsnæðisverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs. Vísir/Vilhelm

Verðbólga mælist nú 5,2 prósent, miðað við 4,5 prósent í desember. Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í desember 2025, er 668,3 stig og hækkar um 0,38 prósent frá fyrri mánuði. Verðbólga eykst umfram spár viðskiptabankanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hagstofunnar. Þar segir að útsölur séu nú í fullum gangi og verð á fötum og skóm hafi lækkað um 7,4 prósent og haft 0,27 prósenta áhrif á vísitöluna til lækkunar Verð á húsbúnaði, heimilistækjum og fleira hafi lækkað um 5,4 prósent og haft 0,23 prósenta áhrif til lækkunar. Flugfargjöld til útlanda hafi lækkað um 10,8 prósent og haft 0,27 prósenta áhrif til lækkunar. Verð á mat og óáfengum drykkjum hafi hækkað um eitt prósent og haft 0,15 prósenta áhrif til hækkunar.

Breytingar á gjaldheimtu höfðu mikil áhrif

Þá segir að um áramótin hafi verið gerðar ýmsar breytingar á gjöldum tengdum ökutækjum sem höfðu áhrif á vísitölu neysluverðs. Olíugjald og vörugjöld á eldsneyti hafi verið lögð niður og kolefnisgjaldið verið hækkað. Tekin hafi verið upp kílómetragjöld fyrir öll ökutæki, vörugjöldum á ökutæki hafi verið breytt og rafbílastyrkurinn lækkaður.

Bensínverð hafi lækkað um 27,4 prósent og haft 0,68 prósenta áhrif á vísitöluna til lækkunar og díselverð um 24,2 prósent, 0,26 prósenta áhrif til lækkunar. Veggjöld hafi hækkað um 633,4 prósent, 0,99 prósenta áhrif til hækkunar, vegna kílómetragjalda og verð á bifreiðum hafi hækkað um 13,3 prósent, 0,56 prósenta áhrif til hækkunar. Þar af hafi hækkun á rafbílum mælst 6,4 prósent, hækkun á tvinnbílum 16,3 prósent og hækkun á bensín/díselbílum 19,8 prósent.

Verðbólga ekki meiri frá því í september árið 2024

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 5,2 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 4,5 prósent.

Greiningardeild Landsbankans hafði spáð 5,1 prósent verðbólgu og greiningardeild Arion banka fimm prósenta verðbólgu.

Stýrivextir eru nú 7,25 prósent og næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður kynnt þann 4. febrúar næstkomandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×