Innlent

Hátt í sjö­tíu ár síðan það snjóaði eins lítið

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Einar segir hátt í þrjátíu starfsmenn starfa í Bláfjöllum. Þeir bíða spenntir eftir alvöru snjó.
Einar segir hátt í þrjátíu starfsmenn starfa í Bláfjöllum. Þeir bíða spenntir eftir alvöru snjó. Vísir/Arnar/Anton

Hátt í sjötíu ár eru síðan eins lítil úrkoma hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu í janúar líkt og nú. Snjóleysið hefur veruleg áhrif á skíðafólk.

Í Bláfjöllum hafa lyfturnar lítið hreyfst í vetur þar sem snjóinn hefur skort og alls kostar óvíst er hvenær hægt verður að opna skíðasvæðið.

Átta snjóbyssur eru í Bláfjöllum og í byrjun desember var byrjað að framleiða snjó. Starfsfólkið var þá vongott um að geta fljótlega farið að taka á móti gestum.

„Við vorum klárir í opnun rétt fyrir jól. Þá kom þriggja vikna rigningartímabil þannig við gátum ekki opnað þá,“ segir Einar Bjarnason rekstrarstjóri í Bláfjöllum.

Í janúar byrjaði snjóframleiðsla aftur þegar það kólnaði.

„Náðum að framleiða á barnasvæðið í kringum okkur og opnuðum það eina helgi með frábærum viðtökum. Það var fullt líf hérna af börnum, bara geggjað, svo kom bara aftur skítatíð og við erum enn þá í því.“

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hafa síðustu tveir mánuðir verið óvenju snjóléttir. Desember var sá fjórði hlýjasti í Reykjavík frá upphafi mælinga. Þá hefur úrkoman í Reykjavík ekki mælst minni fyrstu tuttugu og sjö dagana í janúar síðan árið 1959.

Meðalfjöldi alhvítra daga í Reykjavík frá desember til mars á árunum 1991 til 2020 var fjörutíu og sjö. Þeir hafa hins vegar aðeins verið fjórir núna. 

Einar segir þann litla snjó sem nú er í Bláfjöllum hafa verið framleiddan.

„Þetta er bara nákvæmlega allt úr snjóbyssum.“

Einar hóf störf á svæðinu árið 1981 og segir sjaldan hafa verið jafn lítið af snjó. Veturinn sé þó ekki búinn.

„Við bíðum eftir að við fáum fólk á skíði. Þetta er ömurlegur staður þegar enginn er hérna í fjallinu.“

Það sé þó ekki tilefni til bjartsýni þegar litið er til næstu daga.

„Ef maður horfir viku fram í tímann þá bara sjáum við að við getum ekki gert neitt.“


Tengdar fréttir

Snjó­fram­leiðslan „fárán­lega flott“ í Ártúns­brekkunni

Líklegt er að skíðasvæðið í Ártúnsbrekku verði opnað á miðvikudag. Hafin var snjóframleiðsla á svæðinu síðasta föstudag. Ólíklegt er að opni í Bláfjöllum í vikunni en rekstrarstjóri segir unnið hörðum höndum að því að gera brekkurnar tilbúnar. Þriggja vikna rigningartímabil um hátíðarnar hafi verið starfsfólki mikil vonbrigði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×