Skoðun

Eru opin­berir starfs­menn ekki í­búar?

Liv Åse Skarstad skrifar

Undanfarið hefur verið lögð mikil áhersla á að draga fram kostnað vegna veikinda starfsmanna í hinu opinbera. Tölur eru bornar fram af þunga og notaðar sem rök fyrir því að eitthvað sé „að“ í kerfinu. Sem bæjarfulltrúi hef ég sjálf tekið þátt í þeirri gagnrýni. Það er hluti af ábyrgð kjörinna fulltrúa að fylgjast með rekstri og spyrja gagnrýninna spurninga.

Á sama tíma og þessi umræða er orðin of einföld, þá er staðreyndin sú að hún er einfaldlega hættuleg.

Við erum farin að tala um veikindi starfsfólks eins og þau séu rekstrarbrestur. Eins og fólk sé vandamálið. Sú nálgun á heima í einkarekstri þar sem markmiðið er arðsemi. Hún á ekki heima í hinu opinbera.

Hið opinbera er ekki fyrirtæki. Það er samfélag.

Starfsmenn þess eru ekki „aðrir“. Þeir eru íbúar. Þeir greiða í sameiginlega sjóði, ala hér upp börn, sinna þjónustu og bera kerfið uppi. Samband okkar við þá er ekki hefðbundið vinnusamband — heldur samfélagslegur sáttmáli.

Við vitum öll hvar mörkin liggja þegar kemur að veikindum barna. Enginn sest niður og reiknar út hvað það „kostar“ að lækna barn með krabbamein. Ég veit það af eigin reynslu. Þegar dóttir mín, Ólavía, veiktist af alvarlegu krabbameini – tvisvar með stuttu millibili – var engin umræða um kostnað í þeim skilningi. Þar ríkti algjör samstaða: við hjálpum. Punktur. Ég hef enga hugmynd um hversu miklu hefur verið varið í hennar meðferð síðustu ár. Það hleypur eflaust á hundruðum milljóna, ef ekki meira. En það skiptir einfaldlega engu máli. Í slíkum aðstæðum skipta krónur engu.

Staðreyndin er sú að ef meðferð hennar hefði verið metin út frá kostnaði, þá er ég fullviss um að hún væri ekki hér í dag.

Þessi hugsun er ekki tilviljun. Hún er meðvituð ákvörðun samfélagsins um að mannlegt líf og heilsa séu ekki mæld í krónum.

Sú ákvörðun gildir líka um fullorðna. Hún gildir líka um starfsfólk.

Þegar veikindatölur eru háar er það tilefni til að spyrja spurninga — en rangar spurningar leiða til rangra lausna. Ef við spyrjum aðeins „hvað kostar þetta?“ fáum við aðeins svar í bókhaldi. Ef við spyrjum hins vegar „hvað er að í kerfinu?“ fáum við tækifæri til raunverulegra umbóta.

Veikindi eru oft einkenni. Einkenni álags, skorts á stuðningi, ósveigjanlegra kerfa og menningar sem gerir kröfur án þess að hlúa.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa nær ekki bara til þeirra sem fá þjónustu. Hún nær líka til þeirra sem veita hana. Ef við gleymum því erum við ekki að verja samfélagið — við erum að veikja það.

Kannski er kominn tími til að hætta að telja veikindadaga.

Og byrja að telja ábyrgðina rétt.

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknar og frjálsra á Akranesi.




Skoðun

Sjá meira


×