Innlent

Enga á­kvörðun tekin um Þór­dísi Kol­brúnu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segist eiga í góðu samtali við Þórdísi Kolbrúnu um varnar-, öryggis- og utanríkismál.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segist eiga í góðu samtali við Þórdísi Kolbrúnu um varnar-, öryggis- og utanríkismál. Vísir/Lýður Valberg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist ekki hafa tekið ákvörðun um að skipa Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem sendiherra en sögusagnir þess efnis hafa verið á kreiki undanfarið. Hún segir að missir yrði af Þórdísi Kolbrúnu á þingi ef hún hyrfi til annarra starfa.

Í Bítinu í morgun sagði Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins að miklar sögusagnir væru um það að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrum utanríkisráðherra og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, væri á leiðinni að verða utanríkisráðherra.

„Þetta tek ég fram að voru sögusagnir í ákveðnum kreðsum. Ég myndi allavega ráðleggja ykkur að hringja í fréttastofuna ykkar á eftir og láta hana hringja í einhvern sem veit þetta,“ sagði Páll í Bítinu.

Sjálf segir Þórdís í skilaboðum til fréttastofu að hún hafi engar ákvarðanir tekið um breytingar á sínum högum. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir Þórdísi Kolbrúnu gegna mikilvægu starfi hjá Evrópuráðinu sem erindreki í málefnum úkraínskra barna og sagði eðlilegt að hún væri mátuð við ýmis verkefni erlendis sem og hér heima. 

„Það er litið til þeirra einstaklinga sem hafa staðið sig afburðavel í framkomu og málflutningi og þess vegna er mjög eðlilegt að það sé litið til hennar,“ sagði Þorgerður Katrín í samtali við fréttastofu.

Hún sagðist ekki geta sagt til um það hvort Þórdís Kolbrún hafi lýst yfir áhuga á að gerast sendiherra en að hún sjálf hafi ekki tekið ákvörðun í þeim efnum.

„Ég get ekki verið að ræða frekar svona vangaveltur við eigum gott samtal ég og Þórdís Kolbrún sem og aðrir sem ég á í samtali við um varnar og öryggismál og utanríkismál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×