Handbolti

Svona er staðan: Ekkert svig­rúm hjá strákunum okkar

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason og félagar eru í kjörstöðu eftir sigurinn frækna gegn Svíum.
Ýmir Örn Gíslason og félagar eru í kjörstöðu eftir sigurinn frækna gegn Svíum. VÍSIR/VILHELM

Ísland er í afar jafnri fjögurra liða baráttu um tvö laus sæti í undanúrslitum á EM í handbolta. Liðið verður líklega að vinna Sviss í dag og Slóveníu á morgun til þess að komast þangað.

Strákarnir okkar eru með örlögin algjörlega í eigin höndum eins og staðan er núna, eftir átta marka stórsigurinn á Svíum. Með sigrum í dag og á morgun er líklegast að þeir endi í efsta sæti milliriðils II og mæti liðinu í 2. sæti í milliriðli I. Tap í dag myndi þýða að Ísland yrði að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Ísland, Svíþjóð, Slóvenía og Króatía eru með fjögur stig hvert. Endi lið jöfn að stigum ráða innbyrðis úrslit úr leikjum þeirra lokastöðunni.

Standings provided by Sofascore

Því er það til dæmis þannig að ef að bara Ísland og Króatía enda jöfn að stigum, þá endar Króatía ofar. En ef Ísland, Króatía og Svíþjóð enda jöfn að stigum þá endar Ísland efst þeirra, Svíþjóð næst og Króatía neðst.

Ef að Ísland klárar sitt og vinnur báða leikina eru þetta því einu mögulegu niðurstöðurnar. Að Ísland annað hvort vinni riðilinn eða endi í 2. sæti ef Svíar tapa leik en Króatía vinnur sína og endar jöfn Íslandi að stigum.

Leikirnir í lokaumferðunum:

Þriðjudagurinn 27. janúar

  • 14.30 Ísland - Sviss
  • 17.00 Slóvenía - Króatía
  • 19.30 Svíþjóð - Ungverjaland

Miðvikudagurinn 28. janúar

  • 14.30 Ísland - Slóvenía
  • 17.00 Króatía - Ungverjaland
  • 19.30 Sviss – Svíþjóð

Eins og fyrr segir er Ísland með örlögin í eigin höndum en tapi liðið í dag breytist sú staða algjörlega. Ísland þyrfti þá klárlega að vinna Slóveníu og treysta á hjálp sem fælist í því að Svíþjóð eða Króatía myndu líka tapa í dag eða á morgun.

Sigur í dag myndi líklega ekki duga til að komast í undanúrslit heldur þyrfti liðið einnig að vinna Slóveníu á morgun. Það er aðeins ef að Svíar tækju upp á því að tapa öðrum sinna leikja sem það væri mögulegt að Ísland mætti við því að tapa fyrir Slóvenum.


Tengdar fréttir

Gísli gagnrýnir fyrirkomulagið á EM

Ekki eru allir sáttir með fyrirkomulagið á Evrópumótinu í handbolta. Þeirra á meðal er Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×