Körfubolti

Rose hengdur upp í rjáfur í Chicago

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Derrick Rose gat ekki haldið tárunum eftir þegar treyjan var hengd upp. 
Derrick Rose gat ekki haldið tárunum eftir þegar treyjan var hengd upp.  Geoff Stellfox/Getty Images

Derrick Rose hlaut mestan heiður sem NBA leikmanni getur hlotnast hjá fyrrum félagi sínu í nótt, þegar Chicago Bulls hengdu treyju hans upp í rjáfur og hættu notkun númersins 1.

Rose er aðeins fimmti leikmaðurinn í sögu Bulls sem fær treyju hengda upp í rjáfur. Jerry Sloan #4 og Bob Love #10 höfðu áður hlotið heiðurinn en þeir síðustu sem sáu treyju sína hengda voru Michael Jordan #23 og Scottie Pippen #33.

Einnig hafa fyrrum þjálfarinn Phil Jackson og fyrrum framkvæmdastjórinn Jerry Krause fengið sérstaka borða setta upp í þakskeggið. Þeir eru mennirnir sem yfirsáu velgengni liðsins á tíunda áratug síðustu aldar.

Derrick Rose var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2008 af Chicago Bulls, liðinu í hans heimabæ, og sem einn af þeirra eigin varð Rose fljótt vinsælasti leikmaður borgarinnar.

Hann var valinn nýliði ársins á sínu fyrsta tímabili og tímabilið 2010-2011 varð hann sá yngsti í sögunni til að vera valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar. Þá hafði hann þrisvar verið valinn í stjörnulið NBA.

Árið eftir, í úrslitakeppninni 2012, sleit hann krossband í vinstra hné eftir að hafa hoppað upp í eina af sínum frægu troðslum. Hnémeiðsli hrelltu hann það sem eftir lifði ferilsins.

Rose fór frá Chicago Bulls árið 2016 og flakkaði milli liða, aldrei lengur en tvö tímabil á sama stað. Hann naut endurnýjunar lífdaga hjá Minnesota Timberwolves og var mikilvægasti varamaður liðsins tímabilið 2018-19. Ferlinum lauk svo hjá Memphis Grizzlies árið 2024.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×