Handbolti

„Hann gæti gert fullt af sóknum léttari“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mun Þorsteinn Leó gera íslenska landsliðinu lífið léttara í dag?
Mun Þorsteinn Leó gera íslenska landsliðinu lífið léttara í dag? vísir/ skjáskot

Þorsteinn Leó Gunnarsson gæti komið inn í íslenska landsliðshópinn í leik dagsins gegn Króatíu. Stærsti strákurinn okkar var til umræðu í Pallborðinu.

Þorsteinn Leó er 208 sentimetra há skytta með skothönd sem líkist helst fallbyssu, en hann hefur verið að glíma við meiðsli og ekki tekið þátt í mótinu hingað til.

Sérfræðingarnir Rúnar Kárason og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru sammála því að hann gæti gjörbreytt leiknum ef hann verður með gegn Króatíu í dag.

„Bara það eitt að hann komi inn á myndi þýða það að svona 3-4 Króatar stíga skrefi nær honum, sem er bara plássið sem Ómar [Ingi Magnússon] og Gísli [Þorgeir Kristjánsson] þurfa. Ef Þorsteinn kemur inn á snýst þetta ekki bara um að hann skori mörk eða skili af sér einhverjum skotum. Hann gæti gert fullt af sóknum léttari fyrir Gísla og Ómar“ sagði Rúnar.

Ásgeir benti þó á að Þorsteinn hefur verið meiddur mjög lengi, alveg síðan í nóvember, og myndi væntanlega ekki spila mikið.

„Málið er það að hann er búinn að vera meiddur í einhverjar 5-6 vikur og er ekki í leikformi. Hann hefur ekki fengið neitt alvöru hlutverk hingað til með landsliðinu. Ég sé þetta frekar þannig að ef við lendum í vandræðum, þá getur hann komið í eina, tvær, kannski þrjár sóknir, og skotið okkur inn í leikinn.“

Klippa: EM-Pallborðið fyrir stórleik við Króata

Pallborðið má sjá í spilaranum að ofan.

Leikur Íslands og Króatíu hefst klukkan 14:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×