Handbolti

Al­freð og hans menn með fullt hús stiga eftir hádramatík

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason kemur skilaboðum til Juri Knorr í leiknum við Portúgal í dag.
Alfreð Gíslason kemur skilaboðum til Juri Knorr í leiknum við Portúgal í dag. Getty/Sina Schuldt

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu eru áfram með fullt hús stiga í hinum ógnarsterka milliriðli I á EM í handbolta, eftir sigur gegn Portúgölum í háspennuleik í dag, 32-30.

Þjóðverjar höfðu áður unnið Spán en Portúgalar eru með tvö stig eftir sigurinn magnaða gegn Dönum. Staða Þjóðverja er því afar álitleg en liðið á eftir algjöra rosaleiki við Noreg, Danmörku og Frakkland.

Portúgalar byrjuðu leikinn ívið betur og komust í 8-6 en þá skelltu Andreas Wolff og þýska vörnin í lás í heilar tíu mínútur.

Schluroff raðaði inn mörkum

Það var ekki fyrr en að Antonio Areia sveif inn úr horninu og minnkaði muninn í 10-9, þremur mínútum fyrir hálfleik, sem Portúgal náði að rjúfa múrinn og rétt fyrir hálfleik náði Salvador Salvador að jafna metin í 11-11, með skoti af miðju í autt mark Þjóðverja.

Alfreð setti Miro Schluroff inná í upphafi seinni hálfleiks og hann þakkaði fyrir sig með fjórum mörkum á tíu mínútum en staðan hélst áfram jöfn og spennan mikil.

Schluroff átti stórleik í sókn Þýskalands og náði með ótrúlegum hætti að koma liðinu í 25-23, þegar leiktöf blasti við og sendingar liðsins voru búnar, með sínu sjötta marki þegar sjö mínútur voru eftir.

Æsispenna og ósáttir Portúgalar

Þá tóku hins vegar við tvær brottvísanir hjá Þjóðverjum og fyrirliðinn Johannes Golla fékk beint rautt spjald fyrir högg í andlit. Costa-bræðurnir Francisco og Martim fóru auk þess að vanda mikinn fyrir Portúgala en Þjóðverjum tókst að halda afar naumu forskoti. Francisco minnkaði muninn í 29-28 með sínu tíunda marki þegar tvær mínútur voru eftir.

Lokakaflinn var áfram æsispennandi en Lukas Mertens krækti í vítakast þegar 38 sekúndur voru eftir og Lukas Zerbe skoraði úr því. Portúgal náði að minnka muninn þegar um tíu sekúndur voru eftir og voru svo brjálaðir yfir hve lengi Þjóðverjar voru að taka miðjuna, áður en þeir náðu svo að skora lokamark leiksins.

Klukkan 17 í dag mætast Spánn og Noregur en í kvöld klukkan 19.30 er svo stórleikur ríkjandi heims- og Evrópumeistaranna, Danmerkur og Frakklands. Næsti leikur Þjóðverja er við Norðmenn á laugardagskvöld klukkan 19:30 en Portúgal mætir Frakklandi á laugardaginn klukkan 14:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×