Handbolti

Faxi ekki sár út í Ís­lendinga: „Ís­land getur gert stóra hluti á EM“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Staffan Olsson brosti er hann rifjaði upp rimmurnar gegn Íslandi.
Staffan Olsson brosti er hann rifjaði upp rimmurnar gegn Íslandi. vísir/vilhelm

Staffan „Faxi“ Olsson er var um árabil einn hataðasti maður Íslands enda fór hann iðulega á kostum er Svíar pökkuðu okkur saman á handboltavellinum á síðustu öld.

Þessi síðhærði stríðsmaður, sem spilaði með í vörinni, var holdgervingur Svíagrýlunnar sem blessunarlega var kveðin í kútinn snemma á þessari öld.

Nú er Faxi orðinn 61 árs gamall en er að mörgu leyti eins. Hann er enn með síðu lokkana þó svo lítið sé eftir af hári á hvirflinum. Og hann er að sjálfsögðu enn með í vörinni.

Klippa: Faxi Olsson spáir Íslandi góðu gengi

Ég sá kallinn á liðshótelinu í Malmö í morgun þar sem hann var að búa sig til brottfarar þar sem hans lið, Holland, er úr leik á mótinu. Ég stóðst ekki mátið að biðja Olsson um viðtal og hann var meira en til í það.

„Ég á engan uppáhaldsleik gegn Íslandi en þeir voru mjög margir. Það var eftirminnilegt samt að spila tvo æfingaleiki við Ísland fyrir HM 1995 á Íslandi. Það var fullt af fólki að horfa á og margir voru pirraðir út í mig. Það var samt ekkert alvarlegt og ég hafði alltaf gaman af því að spila á Íslandi,“ sagði Faxi en hann virðist hafa verið meðvitaður um að Íslendingum væri ekkert allt of vel við sig.

„Ég heyrði af því. Ég tók það ekki alvarlega. Þetta var svona ást og hatur á sama tíma. Ég á bara góðar minningar frá Íslendingum og leikmönnum Íslands.“

Spáir Íslandi í undanúrslit

Olsson gerir ráð fyrir því að fjögur lið í milliriðli Íslands muni berjast um farmiðana í undanúrslit.

„Þessi milliriðill er ekki eins sterkur og hinn. Þetta verða Svíþjóð, Ísland, Króatía og Ungverjaland sem munu berjast um farseðlana í undanúrslitin. Ég tel Svíþjóð og Ísland líklegust til að komast í undanúrslit,“ sagði Olsson sem hefur ekki séð mikið til íslenska liðsins á mótinu enda upptekinn af því að stýra sínu liði.

„Ísland er með mjög gott lið og er líka komið með frábæran markvörð en þannig hefur það ekki alltaf verið. Nú á Ísland risastóran möguleika á að gera eitthvað stórt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×