Innlent

Með 29 kíló af maríjúana í töskunum

Atli Ísleifsson skrifar
Mennirnir játuðu brot sín við þingfestingu málsins.
Mennirnir játuðu brot sín við þingfestingu málsins. Vísir/Jóhann K.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvo karlmenn í tíu mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla samtals um 29 kílóum af marijúana til landsins. Þeir komu til landsins með flugi frá Toronto í Kanada í byrjun desember síðastliðnum.

Mennirnir voru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnabrot en þeir voru báðir með um fjórtán og hálft kíló af efnunum í töskum sínum.

Við þingfestingu játuðu mennirnir brot sín en verjandi annars mannsins óskaði eftir að dómari myndi við ákvörðun refsingar taka tillit til ungs aldurs viðkomandi.

Í dómi segir að af rannsóknargögnum verði ekki séð að mennirnir hafi verið eigendur fíkniefnanna eða að þeir hafi tekið þátt í skipulagningu á innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Dómari í málinu mat hæfilega refsingu yfir mönnunum vera tíu mánaða fangelsi og að til frádráttar kæmi gæsluvarðhald sem þeir höfðu sætt frá komunni til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×