Handbolti

Kemst loksins á leik og styður Ís­land til sigurs

Valur Páll Eiríksson skrifar
Létt var yfir Nik Chamberlain er hann spáði í spilin fyrir kvöldið. Hann hlakkar til að geta mætt á leik eftir að hafa misst af fyrstu tveimur.
Létt var yfir Nik Chamberlain er hann spáði í spilin fyrir kvöldið. Hann hlakkar til að geta mætt á leik eftir að hafa misst af fyrstu tveimur. Vísir/Sigurður Már

Nik Chamberlain, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í fótbolta, hefur ekki látið stemninguna í bænum í kringum EM í handbolta fram hjá sér fara. Hann ætlar að styðja Ísland til sigurs í kvöld.

„Það hefur orðið smá breyting. Það er ekkert brjálað um að vera hérna venjulega. Það hefur verið gaman að hitta á íslenskt fólk hérna í bænum og sérstaklega á stuðningsmannasvæðinu (e. fan zone). Ég stefni þangað í kvöld og get vonandi hitt fleira fólk frá Íslandi,“ segir Nik í samtali við íþróttadeild sem leit við á æfingu fótboltaliðsins í dag.

Klippa: Nik spenntur að komast á landsleikinn

Nik tók við Kristianstad um áramótin en hafði fyrir það verið á Íslandi í um áratug. Hann stýrði Breiðabliki til Íslands- og bikarmeistaratitils á nýliðinni leiktíð og fékk kallið frá Svíþjóð.

Líkt og Nik nefnir hefur hann látið sjá sig á Fan Zone en hefur þó ekki komist á leik. Hann ætlar að bæta úr því í kvöld og hlakkar til.

„Ég fór á stuðningsmannasvæðið í fyrradag. Það var mjög gaman. Ég kemst loksins á leik í kvöld og get þá gírað mig almennilega inn í stemninguna – ég gæti jafnvel fengið andlitsmálningu. Þetta er stuð, hvert sem Íslendingarnir fara er stuðningurinn frábær og það er gaman að fylgjast með því,“ segir Nik.

Nú ert þú mikill handboltasérfræðingur, hvernig spáirðu leiknum?

„Já, allir þessir leikir sem ég hef séð í gegnum tíðina,“ segir Nik og hlær. „Ég get líklega bara nefnt tvo leikmenn í liðinu. En segjum að þetta fari 31-29 fyrir Ísland.“

Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 19:30 og er lýst beint á Vísi hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×