Skoðun

Mega Birta og Stein sitja við full­orðins­borðið?

Dagbjört Hákonardóttir og Gunnar Örn Stephensen skrifa

Það eru sveitarstjórnarkosningar í aðsigi og það þýðir aðeins eitt: Ungt fólk kemst loksins á dagskrá hjá stjórnmálafólki og það er bitist um athyglina. Þessu sama dagskrárvaldi fólksins sem á að erfa landið lýkur hins vegar oftar en ekki um leið og talið er upp úr kjörkössunum. Þetta verða allir stjórnmálaflokkar að taka til sín að einhverju leyti. Ríkisstjórnin leggur reyndar sitt af mörkum til málaflokksins með því að eiga frumkvæði að samvinna við Reykjavíkurborg í húsnæðismálum sem mun auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Við þurfum hin vegar að gera meira. Þannig þurfum við að fjölga þeim sætum sem raunverulega bjóðast ungu fólki við stóra borðið.

Hvaða fólk er þetta?

Oft er talað niður til ungliðastarfs í stjórnmálum. Almennt er miðað við að fólk á aldrinum 18-35 ára teljist til ungra kjósenda og þar með ungliða í stjórnmálaflokkum. Fjölmörg dæmi eru þess að yngri einstaklingar alveg niður í 15 ára gangi taki þátt í stjórnmálastarfi og því á að fagna. Enn aðrir lifa í afneitun um að teljast ekki lengur til ungliða fram yfir fertugt líkt og annar greinarhöfunda gengst fúslega við. Þær stjórnmálahreyfingar sem hafa til þess fjölda og burði vita að sterk ungliðahreyfing er forsenda öflugrar grasrótar, sjálfbærrar endurnýjunar í starfinu og nauðsynlegs aðhalds. Virtustu og farsælustu stjórnmálamenn okkar jafnaðarmanna á alþjóðasviðinu hafa lýst því að bakgrunnur þeirra úr ungliða- og háskólapólitík hafi gert þau að betri leiðtogum og gert þeim kleift að hafa betri og dýpri skilning á athugasemdum og gagnrýni úr röðum ungs fólks þegar í valdastól er komið. Hér má nefna stjórnmálafólk á borð við Jens Stoltenberg fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra Noregs, Magdalenu Andersson fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi stjórnarandstöðunnar þar í landi, Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og Sönnu Marin, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands.

Af hverju skiptir rödd þeirra máli?

Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands hefur almennt mælst stærsti stjórnmálaflokkur landsins í hartnær þrjú ár. Þessi mikla velgengni er ekki sjálfsprottin heldur afrakstur áralangrar vinnu og leitar inn á við. Það má líka horfa til þess að stuðningur við endurnýjun forystu Samfylkingarinnar og kjör Kristrúnar Frostadóttur barst ekki síst úr öflugri ungliðahreyfingu – Ungu jafnaðarfólki – sem mörg lögðu á sig mikla vinnu til að veita ungum hagfræðingi brautargengi til að leiða annan lista flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar 2021. Velgengni Samfylkingarinnar sem stjórnmálaflokks hefur jafnframt falist stöðugu í samtali við hinn almenna kjósenda – fólkið í landinu þar sem það er fyrir statt. Þá skiptir máli að tala við alla hópa og ná til þeirra. Við gerum það ekki jafn vel ef framboðslistarnir okkar um allt land endurspegla ekki ábyrgð og hlutdeild ungs fólks i lýðræðissamfélaginu sem við ætlum að rækta og viðhalda. Hér er enginn að segja að fólk sem ekki tók þátt í ungliðahreyfingum eða er komið yfir miðjan aldur geti ekki haldið málefnum ungra á lofti eða eigi ekki erindi. Ungt fólk þarf hins vegar líka að eiga sæti við borðið - ekki síst í jafnaðarmannaflokki sem ræktar sína grasrót vel.

Er nauðsynlegt að kjósa þau?

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru íbúar Reykjavíkurborgar í upphafi síðasta árs 138.772 talsins. Þar af eru íbúar á aldrinum 18-35 ára 37.645. Ætla má að ungt fólk telji að minnsta kosti fjórðung kjósenda til borgarstjórnarkosninganna sem fara fram í maí, með fyrirvara um að hlutfallið endurspegli fjölda kjörgengra í kjörskránni í vor. Fæstir hafa gert upp endanlegan hug sinn, en málefnin sem fá að ráða för munu snúast að miklu leyti um hagsmuni ungs fólks sem þarf á stuðningi samfélagsins til að standa undir þeirri ábyrgð sem þeim er sannarlega falin í sínu daglega lífi.

Hver eru málin?

Ungt jafnaðarfólk í Reykjavík hefur nú tekið höndum saman til stuðnings Bjarnveigu Birtu Bjarnadóttur rekstrarstjóra í 3. sæti og Stein Olav Romslo stærðfræðikennara í 4. sæti. Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar myndi njóta góðs af öflugum fulltrúum með sterkan bakgrunn í grasrótarstarf flokksins sem og atvinnulífinu. Mestu máli skiptir að þau upplifa sjálf þær áskoranir sem ungar fjölskyldur í Reykjavík kljást við dag frá degi. Við jafnaðarmenn eigum að hafna vaxandi stéttaskiptingu og stemma stigu við misskiptingu gæðanna sem heldur áfram að aukast um allan heim - ójöfnuði sem bitnar allra verst á ungu fólki. Ekkert um ungt fólk án ungs fólks. Við viljum sjá Birtu og Stein við stóra borðið.

Dagbjört er þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður og sat í stjórn Ungs jafnaðarfólks 2003-2006. Gunnar Örn er meistaranemi og sat í stjórn Ungs Jafnaðarfólks 2021-2024.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×