Handbolti

„Örugg­lega orðinn hund­leiður á um­ræðunni“

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Þrastarson sækir gegn pólsku vörninni í sigrinum góða á sunnudaginn.
Haukur Þrastarson sækir gegn pólsku vörninni í sigrinum góða á sunnudaginn. EPA/Cornelius Poppe

Haukur Þrastarson átti skínandi leik í sigrinum örugga gegn Pólverjum á EM í handbolta á sunnudaginn. Sérfræðingarnir í Besta sætinu segja það sýna styrk hve margir geti látið til sín taka í íslenska liðinu.

Ljóst er að Ísland þarf á kröftum sem flestra að halda í kvöld þegar liðið mætir Ungverjalandi í fyrstu stóru prófrauninni á mótinu, klukkan 19:30.

Haukur náði hundrað mörkum og hundrað stoðsendingum fyrir áramót í sterkustu landsdeild í heimi, þýsku deildinni, með liði Rhein-Neckar Löwen en beðið hefur verið eftir því að hann sýni sínar bestu hliðar í íslensku landsliðstreyjunni. Þessi 24 ára Selfyssingur sýndi þær gegn Póllandi.

„Þetta er frábært fyrir Hauk. Hann er örugglega orðinn hundleiður á umræðunni um að hann sé ekki að finna sig í búningnum, vanti sjálfstraust og allt þetta. Þetta er náttúrulega bara frábær leikmaður sem hefur átt frábært tímabil og hann þurfti bara aðeins að fá „mómentið“. Maður gerir bara ráð fyrir að hann leggi áfram eitthvað á borðið,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson í Besta sætinu.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan og í helstu hlaðvarpsveitum.

Jóhann segir nauðsynlegt að menn eins og Haukur og fleiri létti á byrðunum á lykilmönnum íslenska liðsins.

„Það þarf alltaf einhver að koma með eitthvað extra í svona móti. Það geta ekki allir átt góðan leik, það er nánast óheyrt að slíkt gerist. Núna var það Ómar, „maður leiksins“, sem tók það svolítið á sig [að eiga ekki góðan leik] en þá kemur Viggó bara með frábæra innkomu og það sýnir styrkleika. Þetta er það sem maður vill sjá. Maður ólst ekki upp við þetta í liðunum hans Gumma Gumm. Þá voru þetta bara sjö leikmenn sem spiluðu, nánast allt mótið, og svo kom Logi kannski inná og Ásgeir til að leysa af í vörn. Núna erum við með 12-13 leikmenn sem koma inná og hann treystir. Ekki bara í einhverjar ruslmínútur,“ sagði Jóhann.

„Þetta skiptir öllu máli“

Stefán Árni Pálsson benti á að bestu landsliðin í dag, Danmörk og Frakkland, væru með svo marga öfluga leikmenn og það væri nauðsynlegt í nútímahandbolta. Þess vegna væri mikilvægi Hauks og manna á borð við Janus Daða Smárason og Viggó Kristjánsson mikið.

„Þetta skiptir öllu máli. Handboltinn í dag er þannig að við þurfum að geta notað alla,“ sagði Einar Jónsson og hélt áfram:

„Mér finnst Snorri í dag vera með 14 leikmenn sem hann spilar á. Með fullri virðingu held ég að Andri sé ekki að fara að vera í einhverju burðarhlutverki, og ég held að Teitur sé ekki að fara að vera það, en hinir 14 eru allt leikmenn sem geta skilað sínu. Maður leiksins gegn Ungverjum gæti þess vegna orðið Óðinn eða einhver annar sem hefur ekki gert mikið í síðustu tveimur leikjum.

Við erum með ógeðslega mikla breidd og mér finnst Snorri líka vera að gera þetta vel. Hann er búinn að vera að byggja þetta upp með þessum hætti og er á frábærum stað,“ sagði Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×