Erlent

Býður Pútín sæti í „friðarráði“ fyrir Gasa­ströndina

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsmenn Úkraínu með grímur af Trump og Pútín við Brandenborgarhliðið í Berlín.
Stuðningsmenn Úkraínu með grímur af Trump og Pútín við Brandenborgarhliðið í Berlín. Vísir/EPA

Bandaríkjaforseti hefur boðið Vladímír Pútín, forseta Rússlands, sæti í svonefndu „friðarráði“ sínu um uppbyggingu Gasastrandarinnar. Ekki er ljóst hvort að sömu kröfur verði gerðar til Pútín og til annarra leiðtoga sem eru sagðir hafa fengið slíkt boð.

Stjórnvöld í Kreml greindu frá því í dag að Donald Trump hefði sent Pútín forseta boð um sæti í „friðarráði“ um stjórn og uppbyggingu Gasastrandarinnar eftir hernað Ísraela þar.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, segir að rússnesk stjórnvöld reyni nú að átta sig á smáatriðunum í tilboðinu í samræði við stjórnvöld í Washington.

Vestrænir fjölmiðlar hafa greint því að Trump ætli að krefja leiðtoga um milljarð dollara ef þeir vilja taka varanlegt sæti í ráðinu.

Friðarráðið var stofnað með blessun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í nóvember en því var ætlað að fylgja eftir vopnahléi Ísraels og Hamas-samtakanna. Trump er sagður verða fyrsti formaður þess og hafa neitunarvald um ákvarðanir þess.

Á meðal þeirra sem eru sagðir hafa fengið boð í ráðið er Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, og Javier Milei, forseti Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×