Viðskipti innlent

Stækka aðrennslis­göng Sultar­tangastöðvar

Atli Ísleifsson skrifar
Sultartangastöð við Þjórsá.
Sultartangastöð við Þjórsá. Landsvirkjun

Landsvirkjun hyggst nýta góða vatnsstöðu til að ráðast í stór viðhalds- og endurbótaverkefni sem erfitt er að komast í við eðlilegar aðstæður í vinnslukerfinu. Viðamest þeirra verkefna er stækkun aðrennslisganga Sultartangastöðvar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun. Þar segir að staða vatnsbúskapar á vinnslusvæðum Landsvirkjunar sé nú með allra besta móti miðað við árstíma. 

„Ástæður þessa má rekja til þess að upphafsstaða lóna í haust var mjög góð, niðurdráttur hófst tiltölulega seint og desember var gjöfull með hlýindum og miklu innrennsli.

Búið í haginn fyrir stækkun

Í ljósi góðrar vatnsstöðu skoðar Landsvirkjun nú að ráðast í stór viðhalds- og endurbótaverkefni. Á næstu dögum verður boðin út víkkun aðrennslisganga Sultartangastöðvar og verður endanleg ákvörðun tekin í kjölfarið. Þær framkvæmdir kalla á að stöðin verði tekin úr rekstri frá apríl næstkomandi og fram á haustmánuði. Markmiðið með framkvæmdinni er að draga úr falltöpum og búa í haginn fyrir stækkun stöðvarinnar í framtíðinni.

Þetta verkefni bætist við önnur stór verkefni sem fyrirhuguð eru í sumar, þ.á m. viðgerðir við Vatnsfellsstöð en vegna þeirra er áætlað að taka stöðina úr rekstri í u.þ.b. 6 vikur. Einnig stendur til að halda áfram viðgerðum á Þórislokum sem stýra rennsli úr Þórisvatni en viðgerðir á mannvirkjum og búnaði þar hafa staðið yfir undanfarin ár.

Þá krefst undirbúningur að stækkun Sigöldustöðvar þess að stöðin sé tekin úr rekstri í u.þ.b. 2 mánuði. Sigöldustöð verður stækkuð um allt að 65 MW með því að bæta við fjórðu vélinni, sem og fjórðu þrýstipípunni. Eftir stækkun er gert ráð fyrir að virkjunin skili allt að 215 MW afli, í stað þeirra 150 MW sem hún býr nú að,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×