Handbolti

„Elvar og Ýmir voru rosa­legir“

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason fer yfir málin með sínu fólki eftir stórleik sinn gegn Pólverjum í gær.
Ýmir Örn Gíslason fer yfir málin með sínu fólki eftir stórleik sinn gegn Pólverjum í gær. EPA/JOHAN NILSSON

Varnarleikur Íslands hefur verið magnaður í fyrstu tveimur leikjunum á EM í handbolta og liðið ekki saknað þar Arons Pálmarssonar eins mikið og óttast var. Þetta sögðu sérfræðingarnir í Besta sætinu, hlaðvarpsþætti íþróttadeildar Sýnar.

„Mér fannst vörnin góð eiginlega allan leikinn. Elvar og Ýmir voru rosalegir,“ sagði Einar Jónsson sem ásamt Jóhanni Gunnari Einarssyni fór yfir málin með Stefáni Árna Pálssyni í gærkvöld, eftir stórsigurinn gegn Pólverjum.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan og á hlaðvarpsveitum.

Íslenska vörnin virtist hafa öll svör við pólska sóknarleiknum og ekki þurfti neinn stjörnuleik frá markvörðunum til að halda Póllandi í 23 mörkum.

„Þeir bara komust ekki í þessi skot“

„Þessi lið frá Austur-Evrópu eru þekkt fyrir að spila svona 9-metra bolta. Þekkt fyrir að dúndra á markið. Pólverjar eru sjötta hæsta liðið á EM, margir stórir, en þeir bara komust ekki í þessi skot,“ sagði Jóhann Gunnar og hélt áfram:

„Þó að við séum að spila 6-0 vörn þá eru menn svo hreyfanlegir og alltaf mættir í þessi skref til að trufla klippingar og slíkt. Þeir [mótherjarnir] ná ekki neinum takti. Mikið af þeirra mörkum voru bara „eitthvað“. Hnoðast og svo datt þetta óvart fyrir þá. Það var ekkert sem virkaði vel hjá þeim,“ sagði Jóhann.

Jóhann benti á að risavaxnir línumenn hefðu oft reynst íslenska liðinu mikið vandamál en það var ekki svo í gær.

„Hreyfanleikinn og orkan… Þetta er rosalegt. Maður hélt að Elvar myndi spila meira í sókninni en miðað við orkuna sem fer í vörnina hjá honum þá held ég að það sé skynsamlegt að vera ekki mikið að spila honum í sókn þegar við þurfum þess ekki. Hann var magnaður, eins og í raun öll vörnin,“ sagði Jóhann.

Hafi fyllt vel í skarðið fyrir Aron

Stefán benti á að margir hefðu óttast að fjarvera Arons hefði mikil áhrif á varnarleik Íslands en hingað til hafa menn náð að fylla vel í skarðið:

„Mér finnst Elliði hafa verið frábær í bakverðinum, sem Aron hafði verið að spila. Við pressuðum þá svolítið hátt upp og þvinguðum þá í að tapa boltanum. Þetta virðist vera uppleggið. Janus hefur líka spilað bakvörðinn og í einhverju leikhléinu sagði Snorri: „Haukur, þú verður bara að spila vörnina“. Hann gerði það svo bara mjög vel. Haukur spilar ekkert vörn með Löwen en mér fannst hann alltaf góður varnarmaður. Það er ekkert endilega einn sem tekur hlutverk Arons en mér finnst allir vera að gera það og á heildina hefur þetta litið mjög vel út. Varnarleikurinn í þessum tveimur leikjum hefur verið magnaður,“ sagði Einar.


Tengdar fréttir

Skýrsla Vals: Haukur í horni

Átta marka sigur á Póllandi á EM í kvöld var síst of stór. Tveir vendipunktar og haukar í horni okkar skiluðu öðrum geggjuðum sigri í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×