Skoðun

Hvar eru mannvinirnir?

Lárus Bl. Sigurðsson skrifar

Á síðustu rúmum tveimur vikum hefur ríkt uppreisnarástand í Íran. Almenningur hefur fengið nóg af klerkastjórninni, sem hefur undir heraga og ofbeldi þvingað landsmenn í áratugi og keyrt efnahagskerfi landsins í þrot. Klerkastjórnin í Íran hefur fjármagnað og stutt helstu hryðjuverkasamtök heims og tengist þeim mjög nánum böndum. Má þar nefna til dæmis Hezbollah samtökin í Líbanon, Húta í Jemen og hryðjuverkasamtökin Hamas sem eru stjórnvöld á gaza.

Nú berast óstaðfestar fréttir af því að 12.000 saklausir borgarar hafi verið tekin af lífi í almennum mótmælum óbrettra og óvopnaðra mótmælanda í Íran. Þetta er óraunverulegur fjöldi fólks. Blóðbað. Margir segja fórnarlömbin í þessum voðaverkum séu enn fleiri. En hver sem tala látinna er, er ljóst að mikill mannlegur harmleikur er í gangi í Íran og virðist sem klerkastjórnin hiki ekki við að myrða saklaust fólk, til þess að halda völdum.

Mjög takmarkað er um þetta fjallað í stærstu fjölmiðlum á Íslandi, sem hafa þó verið ófeimnir við að flytja okkur fréttir af stríðsátökum í miðausturlöndum á síðustu árum, nánast daglega.

Svo er það áhugavert að atvinnumótmælendur á Íslandi, sem eru að eigin sögn sérstakir mannvinir, og eru búnir að vera mótmæla hernaðaraðgerðum reglulega hér á landi á undanförnum árum, hafa haft afar hægt um sig gagnvart þessum skelfilegu aftökum á almennum borgurum í Íran. Hvar eru þessir mannvinir? Hvar er „Frjálst Íran“ fólkið? Eru mannslíf í Íran minna virði en mannslíf á gaza? Hvar er mennskan? Gæti ástæðan verið sú að klerkastjórnin í Íran og vitorðsmenn þeirra séu ekki bara á bakvið hryðjuverk víða um heim, heldur séu þau líka bakhjarl áróðurs og mótmæla í vestrænum löndum síðustu ár?

Höfundur er stjórnmálafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×