Erlent

Ekki úti­lokað að Ís­land sæti Grænlandstollum

Agnar Már Másson skrifar
Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, fór í ferð til Bandaríkjanna til að ræða við varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í vikunni. „Hún er algjörlega misheppnuð,“ segir stjórnmálafræðingur um fundinn.
Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, fór í ferð til Bandaríkjanna til að ræða við varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í vikunni. „Hún er algjörlega misheppnuð,“ segir stjórnmálafræðingur um fundinn. AP

Ekki er útilokað að Donald Trump Bandaríkjaforseti leggi toll á Ísland, að mati stjórnmálafræðings, rétt eins og forsetinn hyggst gera við fjölda Evrópuríkja vegna stuðnings þeirra við Grænland. Stjórnmálafræðingurinn segir að aðferðir Trumps séu komnar á svo alvarlegt stig að Evrópulönd geti ekki lengur útilokað innrás Bandaríkjamanna í Grænland.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur segir að ekki sé hægt að draga miklar ályktarnir af því að Trump minnist á Ísland í færslu sinni þar sem hann tilkynnti um 10 prósenta Grænlandstoll á Norðurlönd, Breta, Frakka, Þjóðverja og fleiri.

„Það veit enginn hvort það muni koma að því eða ekki. Sú hætta vofir yfir okkur þó að við séum ekki í þessum fyrstu aðgerðum hans,“ segir stjórnmálafræðingurinn í samtali við Vísi.

Trump nefndi í færslu sinni að hann hygðist gefa enn frekar í þann 1. júní og hækka tollinn í 25 prósent ef Evrópulönd verða ekki búin að styðja við innlimun Grænlands í Bandaríkin. 

„Og þetta er orðið mjög erfitt og alvarleg staða milli þessara bandalagsríkja, Bandaríkjanna og Evrópuríkja,“ bætir Baldur við.

Hinar diplómatísku leiðir hættar að virka með Trump

Forsetinn virðist með þessu ætla sér að refsa þeim sérstaklega sem hafa staðið fyrir heræfingum danskra stjórnvalda á Grænlandi en tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar hafa verið sendir til Grænlands. 

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur.Vísir/Vilhelm

„Hann kvikar ekki frá markmiðum sínum um að ná völdum á Grænlandi,“ segir hann.

Stóra spurningin að mati Baldurs er hvort ríki Evrópu, sem hafa reynt að vinna á mjög jákvæðum diplómatískum nótum með Bandaríkjastjórn til að forðast átök, muni halda áfram að fara hinar hefðbundnu diplómatísku leiðir í samskiptum sínum við Trump.

„Sum ríki hafa nú gengið ævilangt í að sleikja upp, einna lengst Bretar, og þessi jákvæða diplómatíska nálgun gagnvart Trump og að gefa stöðugt eftir er ekki að skila neinum árangri.“

Hann spyr hvort tímabært sé að svara bandarískum stjórnvöldum af meiri hörku.

„Það virðist vera að hann líti þannig á að annað hvort ertu með honum eða ert á móti, það er enginn millivegur. Ef menn hreyfa einhverjar mótbárur þá ertu ekki í vinaliðinu og átt hættu á refsiaðgerðum.“

Íslendingar í klípu

Baldur segir því að íslensk stjórnvöld standi frammi fyrir miklum vanda varðandi það hvernig eigi að bregðast við; hvort þau ætli að standa með Grænlendingum og á sama tíma reyna að styggja ekki Bandaríkjastjórn.

Íslensk stjórnvöld hafa væntanlega miklar áhyggjur af þessum málum?

„Jú, ég geri ráð fyrir því að þau hafi miklar áhyggjur af því hvort við munum enda í þessum fyrstu refsiaðgerðum,“ svarar Baldur. Enn fremur hefur hann áhyggjur af því að Bandaríkin að Ísland lendi í næstu tollaaðgerðum sem eiga að taka gildi 1. júní að óbreyttu.

„Ég held að það megi efast um að hann sé hættur þarna.“

Gæti beint spjótum sínum að einstaka fyrirtækjum

Bandaríkjaforseti á ekki að geta lagt sérstaka tolla á Danmörku án þess að leggja tolla á öll Evrópusambandsríkin enda eru þau í tollabandalagi. 

Bandaríkin geta aftur á móti lagt toll á einstaka vörur sem eru mikilvægur útflutningur þessara landa, svo sem lyf frá Danmörku.

„Hann gæti ráðist á einhver stórfyrirtæki hjá þeim,“ nefnir Baldur í samhengi Norðurlanda. „Hann hefur auðvitað mörg tromp á hendi til að klekkja á þessum ríkjum efnahagslega og líka varnarlega og öryggislega“

Baldur segir að ferð Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, hafi greinilega ekki gengið vel.

„Hún er algjörlega misheppnuð. En það er vandmeðfarið.“

Evrópulönd geta ekki útilokað innrás

Stjórnmálafræðingurinn bendir þó á að Trump hafi í auknum mæli talað um að kaupa Grænland, frekar en að taka það yfir með valdi

„En út frá því hvernig hann hagar sér þá tel ég að hann muni ekki láta staðar numið,“ bætir Baldur við.

Trump hefur enn ekki útilokað hernaðaríhlutun á Grænlandi.

„Það er ekki hægt að útloka það að hann beiti valdi til þess að ná valdi. Ekki komið að þeim tímapunkti en, Danir, Grænlendingar og Evrópulönd geta ekki útilokað þann möguleika að málið sé komið á það alvarlegt stig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×