Skoðun

Ertu að kjósa gegn þínum hags­munum?

Guðni Freyr Öfjörð skrifar

Ertu að kjósa gegn þínum hagsmunum? Þegar farið er yfir heildargögn Bjargs sem er óhagnaðardrifið leigufélag, ekki í brotum heldur í samhengi, blasir við mjög skýr mynd. Íbúðir sem þegar hafa verið kláraðar og afhentar sýna að Reykjavík hefur í mörg ár verið burðarás félagslegs leiguhúsnæðis á Íslandi. Þar má nefna stór verkefni í Árbæ, Grafarvogi, Úlfarárdal, Bryggjuhverfi, Vogabyggð og á vinsælum reitum á borð við Kirkjusand, þar sem hundruð íbúða hafa farið í útleigu á árunum 2019–2024. Reykjavík sker sig þar úr, bæði í umfangi og samfellu, á meðan önnur sveitarfélög koma inn með einstök verkefni sem eru yfirleitt mun smærri. Það eitt og sér sýnir hver hefur borið raunverulega ábyrgð á uppbyggingu Bjargs hingað til.

Þegar horft er til framkvæmda sem nú eru hafnar styrkist þessi mynd enn frekar. Reykjavík er með stór verkefni í gangi á reitum eins og Safamýri og í Haukahlíð á Valsreit, þar sem samtals yfir hundrað íbúðir eru í byggingu. Á sama tíma eru önnur sveitarfélög með færri og smærri verkefni í senn, til dæmis í Mosfellsbæ, á Akureyri, í Reykjanesbæ og á Flúðum. Munurinn liggur ekki aðeins í fjölda íbúða, heldur í því að Reykjavík er stöðugt með fleiri en eitt stórt Bjarg verkefni í framkvæmd á sama tíma.

Skýrast verður þetta þó þegar litið er á íbúðir í undirbúningi. Samkvæmt yfirliti Bjargs eru nánast allar framtíðaráætlanir félagsins bundnar við Reykjavík. Verkefni á borð við Rangársel, Gufunes, tvo áfanga í Skerjafirði, Korpureit, Vogur (neðrasvæðið á Ártúnshöfðanum), framreit Safamýrar, Miklubrautarstokk, Sæbrautarstokk, Veðurstofuhæð, U-reit í Vatnsmýrinni og fleiri óstaðsetta reiti innan borgarinnar mynda saman langt yfir sjöhundruð íbúða. Fyrir utan eitt lítið verkefni á Akureyri eru allar þessar íbúðir í Reykjavík. Það þýðir að um 98% allra Bjarg íbúða sem eru í undirbúningi á Íslandi eru í höfuðborginni. Það vekur sérstaka athygli að næststærsta sveitarfélag landsins, Kópavogsbær, hefur ekki afhent Bjargi eina einustu lóð samkvæmt yfirliti félagsins. Það kallar á eðlilega spurningu: eftir hverju eru önnur sveitarfélög að bíða?

Þetta er því ekki spurning um skoðanir, pólitíska línu eða túlkun. Gögnin sýna svart á hvítu að Reykjavíkurborg stendur langbest allra sveitarfélaga þegar kemur að uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis án hagnaðarsjónarmiða. Borgin hefur skilað flestum íbúðum, er með stærstu verkefnin í framkvæmd og ber nánast alla framtíðarábyrgðina þegar horft er til næstu ára. Allt tal um að Reykjavík standi í vegi fyrir uppbyggingu stenst einfaldlega ekki þegar raunveruleg staða er skoðuð í heild sinni. Borgin hefur verið hluti af lausninni í mörg ár.

Það sem oft vill gleymast viljandi í umræðunni er að þetta er sama borg og heldur uppi langstærstum hluta félagslegs húsnæðis á landinu, rekur víðtækasta velferðarkerfið og ber þyngsta baggann í þjónustu við viðkvæma hópa samfélagsins. Hér eru engar ýkjur. Reykjavík hefur afhent óhagnaðardrifnum leigufélögum langflestar lóðir og tekið á sig samfélagslega ábyrgð sem önnur sveitarfélög komast einfaldlega ekki nálægt. Slíkar staðreyndir passa hins vegar illa inn í þá neikvæðu frásögn sem oft er haldið á lofti í pólitískum tilgangi, þar sem borgin er máluð sem staður óreiðu og fjárhagslegs gjaldþrots (frásögn sem stenst enga skoðun þegar lykiltölur eru skoðaðar; sjá umfjöllun Þórðs Snæs Júlíussonar, „Bábiljur um fjárhagsleg vandræði Reykjavíkur byggja á engu nema sandi“, 9. maí 2025).

Viðskiptaráð hefur ítrekað gagnrýnt óhagnaðardrifin leigufélög og kallað eftir breytingum sem færa húsnæði á almennan markað, með þeim rökum að hið opinbera eigi ekki að vera í slíkum rekstri – þrátt fyrir að starfsemi ráðsins sjálf hafi að verulegu leyti verið fjármögnuð af aðildarfélögum í opinberri eigu frá árinu 2015. (Til að taka af allan vafa: Viðskiptaráð gegnir mikilvægu hlutverki á sínu sviði. En þegar stór hagsmunasamtök tala gegn félagslegum húsnæðisúrræðum og öðrum félagslegum innviðum

er sú orðræða ekki aðeins villandi, heldur getur hún haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild)

En hvað myndi slík stefna raunverulega þýða? Hún myndi óhjákvæmilega opna á að íbúðir á borð við þær sem Bjarg byggir yrðu settar í markaðsumhverfi þar sem fjárfestar gætu hagnast á þeim á kostnað félagslegs öryggis. Þetta er, í reynd, sósíalismi fyrir fáa, en markaður fyrir almenning. Þetta er nákvæmlega sama þróun og átti sér stað þegar verkamannabústaðakerfið var smátt og smátt einkavætt og lagt niður.

Til að gera þessa stefnu söluvænlega er hún sjaldnast sett fram berum orðum. Einkavæðing í þessu samhengi er yfirleitt klædd í falleg slagorð, til dæmis um að „fólk eigi að eiga þess kost að eignast eigið húsnæði“. Samhliða er dregin upp mynd af „óskilvirku“ opinberu kerfi, þar til hugmyndinni er smám saman plantað að markaðurinn muni einfaldlega leysa málin betur.Sú frásögn stenst hins vegar illa þegar horft er til reynslunnar. Markaðurinn hefur ekki leyst húsnæðisvandann, hvorki hér né víða annars staðar, heldur aukið óöryggi, þrýst upp fasteignaverði og dýpkað aðskilnað milli þeirra sem eiga og þeirra sem leigja. Í því samhengi hefur áhersla á séreignarstefnu lengi verið notuð sem rök gegn því að ríki og sveitarfélög fjárfesti í öflugu félagslegu húsnæðiskerfi kerfi sem gögnin sýna að skilar raunverulegum árangri. Séreignastefna sem ráðandi húsnæðisstefna hefur þannig verið ein af meginorsökum þess húsnæðisvanda sem blasir við í dag, ekki síst vegna þess að hún veikti félagslegt húsnæðiskerfi Hugmyndin um meinta lóðaskortinn stenst ekki þegar gögnin eru skoðuð í heild. Hún er mýta, rétt eins og fullyrðingar um að hér ríki orkuskortur, þegar raunveruleikinn snýst um forgangsröðun og hagsmuni. Það er ekki tilviljun hvaðan þessi frásögn kemur. Hún þjónar fyrst og fremst sjónarmiðum þeirra sem vilja draga úr félagslegri húsnæðisuppbyggingu og veikja hlutverk borgarinnar, þar á meðal hagsmunasamtök á borð við Viðskiptaráð og stjórnmálaöfl sem tala þeirra máli í borginni.

Kæri kjósandi. 

Ég bið þig að íhuga þetta alvarlega þegar þú stendur í kjörklefanum: 

Er ég að kjósa gegn mínum eigin hagsmunum?

Er ég að kjósa gegn fólki sem þarf öruggt húsnæði, og þeim þúsundum sem hafa fengið það í gegnum Félagsbústaði og Bjarg? 

Er ég að kjósa gegn fólki með fíknivanda sem reiðir sig á skaðaminnkunarúrræði sem borgin hefur verið leiðandi í? 

Er ég að kjósa gegn fólki sem er heimilislaust eða á jaðrinum í kerfinu, þar sem borgin er eina sveitarfélagið sem sinnir þessum málaflokki með skipulögðum hætti? 

Er ég að kjósa gegn hinsegin fólki og öðrum jaðarsettum hópum? 

Er ég að kjósa gegn uppbyggingu fyrir virka ferðamáta, svo sem aðskilda hjóla- og göngustíga og aukið öryggi fyrir óvarða vegfarendur, þar sem borgin hefur sýnt raunverulega og markvissa forystu? 

Er ég að kjósa gegn framtíð Borgarlínunnar, einu mikilvægasta samgönguverkefni Íslands í áratugi? 

Er ég, í raun, að kjósa gegn framtíðinni eða taka ákvörðun byggða á staðreyndum og eigin hagsmunum?

Höfundur er Pírati.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×