Skoðun

Í­búar í Reykja­vík skipta máli ‒ endur­reisum íbúaráðin

Sigfús Ómar Höskuldsson skrifar

Í borg ‒ í samfélagi hafa allir hlutverk ‒ misstórt, mismikið, en öll berum við ábyrgð á okkur sjálfum og nærsamfélaginu.

Í sveitarstjórnarkosningum er fólk valið til frekari ábyrgðar. Þá kjósum við fulltrúa sem hafa það hlutverk að reka samfélagið, sveitina, borgina og allt þar á milli, á því kjörtímabili.

En eru þá íbúarnir stikkfrí eftir að hafa valið sér sína fulltrúa ? Svarið er nei, síður en svo. Um alla Reykjavíkurborg er fullt af grasrótarsamtökum sem vilja betra samfélag, betri borg. Auðvitað á mismunandi forsendum.

Hér mætti nefna ein samtök sem hafa haft sig í frammi að undanförnu ‒ samtökin Hljóðmörk sem vilja minna ónæði af flugvellinum, vilja búa í sátt við áætlunar- og sjúkraflug, að minnsta kosti að sinni, að en forðast óþarfa hávaða, óþarfa flug.

Og er það ekki bara ágætt? Að grasrótarsamtökin sjái um að koma fram með málin og kynna þau?

Svarið er aftur nei. Það þarf meira til.

Íbúaráðin ‒ endurreisum þau

Síðustu ár hefur Reykjavíkurborg haldið úti svokölluðum íbúaráðum í gegnum Mannréttindaskrifstofu borgarinnar. Þessi ráð voru illu heilli lögð niður við myndun síðasta meirihluta að kröfu eins af flokkunum sem nú stýra borginni.

Hver var svo tilgangur þessara íbúaráða ? Hafa þau raunverulega rödd ?

Svarið er já. Þau hafa tilgang og rödd, sé til þess pólitískur vilji, raunverulegur.

Íbúaráðin geta verið ventill í hverfunum fyrir íbúana, sá staður þar sem íbúar geta mætt, þar sem allir fundir hafa verið og eiga að vera opnir til að íbúarnir geti fylgst með breytingum í nærumhverfinu, svo sem í skipulagi, einstökum breytingum á götum og gatnamótum og öllu öðru sem íbúar í hverfunum eiga að geta kynnt sér og tjáð sig um.

Samfylkingin stendur heils hugar með íbúum og hefur lagt sig fram við að halda úti íbúaráðunum og hvetja þau til dáða.

Ég hef sjálfur setið í svona ráði ‒ starfaði þar í fimm ár sem fulltrúi íbúasamtaka 3. hverfis, það er að segja í Hlíðum, Mýrum og Holtum.

Þar sat ég ásamt pólitískt kjörnum fulltrúum bæði frá bæði meirihluta og minnihluta, og fólki frá öðrum íbúasamtökum og foreldrafélögum í skólunum í hverfinu.

Styrkur ráðanna ‒ og veikleikar

Í starfinu með fólkinu í íbúaráði kynntist ég bæði styrkleikum slíkra ráða og veikleikum. Styrkleikarnir felast í því að þar var oft upphafspunkturinn fyrir þau mál sem íbúar komu með til ráðsins. Eins komu í ráðið mál sem voru umdeild, og máttu þá þola umræðu og gagnrýni sem var svo aftur skilað til sviðanna í borginfi sem voru að vinna málin.

Hér er það sem má gera svo miklu betur.

Ef íbúar vilja hafa áhrif á sín mál og bera ábyrgð, þá þarf meira til. Það þarf að fá íbúaráðunum mun meira vægi en tíðkaðist innan borgarkerfisins, þannig að raddir íbúa og alls kyns athugasemdir fái að heyrast og berast þangað sem þær skipta máli.

Ég hef talað fyrir auknu vægi íbúaráða, bæði sem grasrótarmaður innan Samfylkingarinnar í Reykjavík og sem fulltrúi íbúasamtaka.

Það þarf að skilgreina vægi ráðanna, og fjölga snertiflötum við fulltrúa sviðanna innan borgarinnar. Eins þarf að athuga mögulega lagastoð slíkra ráða þannig að umsagnir þeirra hafi ákveðið gildi, þá þannig að raddir íbúa heyrist raunverulega þangað sem máli skiptir.

Sá böggull fylgir skammrifi að meira lýðræði af þessu tagi fylgir kostnaður, umstang og eftirrekstur. Það ætti ekki að koma í veg fyrir að íbúar geti komið beint fram með sínar athugasemdir í gegnum þann ventil sem íbúaráðin í Reykjavík eiga að vera.

Komist ég í þá stöðu að fylgja eftir jafnaðarstefnu Samfylkingarinnar eftir kosningarnar í maí, þá ætla ég að fylgja þessu máli eftir. Það er mín ábyrgð og minn vilji. Því íbúar Reykjavíkur skipta máli.

Sigfús í sexuna !

Höfundur er formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og sækist eftir 6. sæti í forvali jafnaðarmanna laugardaginn 24. janúar.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×