Handbolti

Þjálfari Ítalíu smeykur við Gísla og Ómar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bob Hanning, þjálfari ítalska landsliðsins.
Bob Hanning, þjálfari ítalska landsliðsins. Vísir/HBG

Þjóðverjinn Bob Hanning, þjálfari ítalska karlalandsliðsins í handbolta, býst við strembnu verkefni er hans menn mæta Íslandi í fyrsta leik á EM í dag. Spennan er töluverð.

„Það er mikil spenna. Öll Ítalía bíður eftir þessu. Þetta verður klikkað, enda í fyrsta skipti sem Ítalía vinnur sér inn sæti á Evrópumóti. Vonandi munu þau ekki aðeins njóta þess að komast hingað, heldur einnig að njóta leiksins,“ segir Hanning. Ítalía spilaði á EM 1998 en fékk þá keppnisrétt þar sem Ítalir héldu mótið.

Nú vann liðið sér inn keppnisrétt og vonast til að fylgja eftir góðum árangri á HM í fyrra. Ljóst er að uppgangur er á handboltanum þar í landi.

Hanning gerir sér hins vegar fulla grein fyrir því að ekki verður gengið að því að ná í góð úrslit gegn Íslandi í dag.

„Í fyrsta lagi vitum við hvernig við þurfum að stilla okkur upp gegn Íslandi en á móti á eftir að spila leikinn. Þeir þurfa að vinna okkur, en við munum leggja allt í þetta. Við vitum að við erum að spila við eitt besta lið heims og fyrir mér er Ísland eitt af liðunum sem er líklegast til að komast í undanúrslit,“

„En ef þú mætir til leiks með það í huga muntu aldrei eiga góðan leik. Það á eftir að spila leikinn, spila lokamínúturnar. Við gerum allt sem við getum og sjáum til hvað gerist. Vonandi verður þetta skemmtilegur leikur,“ segir Hanning.

Smeykur við Gísla og Ómar

Ítalska liðið spilar eilítið óhefðbundinn bolta undir stjórn Þjóðverjans sem fer sínar eigin leiðir. Búast má við að sjá Ítali spila með sex útileikmenn en engan línumann og stilla vörninni upp heldur framarlega. Ítalir þurfi hins vegar að passa sig á sterkum íslenskum leikmönnum.

„Ég held að þeir viti hvað þeir þurfa að gera. Við munum reyna mismunandi hluti og spila af krafti með 3-3 vörn en við getum líka spilað 6-0. Við erum með nokkra kosti. Við þurfum að hugsa hvað við gerum við Gísla og Ómar eða hvaða frábæra leikmann sem mætir á okkur,“ segir Hanning og bætir við:

„Ef þú leyfir okkur að spila munum við spila okkar leik. En ég býst ekki við að Íslendingar verði svo gjafmildir og viti hvað þeir þurfa að gera.“

Klippa: Þjálfari Ítala hræðist íslensku stjörnurnar

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.

Ísland mætir Ítalíu klukkan 17:00 í dag. Teymi Sýnar fylgir íslenska liðinu vel eftir fram að leik og eftir hann. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

„Geri mér vonir um að þetta verði mótið þar sem allt smellur“

„Það er bara fín tilfinning að vera orðinn einn af gömlu mönnunum í landsliðinu. Ég hef svo sem verið það í nokkur ár en tilfinningin er góð,“ segir hornamaðurinn Bjarki Már Elísson sem þarf að axla ábyrgð innan sem utan vallar á EM í Svíþjóð.

„Þetta er ekki flókið“

Ómar Ingi Magnússon er landsliðsfyrirliði Íslands á komandi Evrópumóti sem hefst með leik við Ítali á morgun. Hann er klár í slaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×