Handbolti

Ekki inni­stæða fyrir því að vera kokhraustir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands. Vísir/Ívar Fannar

„Það er kominn fiðringur og spenningur,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, fyrir fyrsta leik liðsins á EM sem fram fer í dag.

„Í heildina er ég sáttur, bæði við æfingar og þessa leiki sem við spiluðum í Frakklandi. Svo er sjálft mótið önnur ella, hún byrjar á morgun. Það er alltaf einhver óvissa og spenna fyrir því og ég tala ekki um fyrsta leik. Við höfum náð góðum æfingum og leikjum svo ég held að við séum klárir,“ segir Snorri um undirbúninginn en Ísland spilaði við Slóveníu og Evrópumeistara Frakka í París fyrir mót.

Leikurinn við Frakka tapaðist naumlega þar sem Ísland var með yfirhöndina lengi vel. Þrátt fyrir úrslitin var frammistaðan fantagóð stærstan part.

„Það var meira jákvætt heldur en neikvætt. Auðvitað ertu smá fúll þegar þú tapar, sérstaklega þar við köstuðum honum frá okkur. En það er betra kasta þessum leik frá okkur en því sem er að koma. Við fengum fullt af svörum, þegar þú spilar á móti svona þjóð færðu að vita það sem þú þarft. Nú tekur alvaran við,“ segir Snorri Steinn.

Loftbrú hefur verið frá Íslandi til Kristianstad þar sem riðlakeppnin fer fram og má búast við fjölmenni Íslendinga í stúkunni. Mikilvægt er fyrir menn að nýta þá orku sem fylgir stuðningsfólkinu til góðs.

„Alveg 100 prósent. Þeir sem spiluðu hérna 2023 muna þetta alveg. Þetta er eitthvað sem er ekki sjálfsagður hlutur, við erum hrikalega þakklátir fyrir. Þetta verður klárlega geggjuð stemning en hún er líka bundin því að við spilum vel og gerum hlutina almennilega. Því er þetta í okkar höndum að spila vel og búa stemninguna til,“ segir Snorri Steinn.

Hafa ekki efni á að vera of kokhraustir

Ísland er í lakari helmingi mótsins og mun sleppa við að mæta Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi og Spáni í milliriðli. Margir sérfræðingar úti í heimi spá Íslandi sæti í undanúrslitum.

Hefur sú umræða áhrif og fylgir henni pressa?

„Ég bara veit það ekki. Það verður að koma í ljós þegar mótið fer af stað. Mér finnst liðið vera einbeitt og við hafa haldið okkur á jörðinni. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er erfitt og það er margt sem þarf að gerast. Þar fyrir utan hefur þetta ekki gerst það oft hjá okkur að við getum verið eitthvað kokhraustir. Fyrsta verkefnið er Ítalía og við eigum fullt í fangi með það,“ segir Snorri Steinn.

Skrýtið lið

Ítalía er verkefni dagsins og vegferðin hefst þar. Ítalska liðið spilar heldur óhefðbundinn handbolta, oft án línumanns, með tvo leikstjórnendur í staðinn og framliggjandi 3-3 vörn. Þarf að breyta nálgun Íslands fyrir leikinn?

„Nálgunin er kannski ekkert öðruvísi. Þetta er kannski eitthvað sem er ekki alveg hefðbundið, þeir spila mikið án línumanns og öðruvísi vörn. En nálgunin er samt bara að við gerum okkar, gerum það vel og þá erum við í fínum málum held ég,“

„Auðvitað eru einhverjar áherslur sem fylgja því að vinna Ítalina. Hvort við séum eitthvað að breyta út af vananum – við erum bara að reyna að komast í það sem við erum góðir í, að sækja á okkar hluti frekar en að aðlaga okkur alltof mikið að þeim,“ segir Snorri Steinn.

Klippa: Snorri Steinn fer yfir sviðið fyrir fyrsta leik

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.

Ísland mætir Ítalíu klukkan 17:00 í dag. Teymi Sýnar fylgir íslenska liðinu vel eftir fram að leik og eftir hann. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×