Erlent

Trump hótar að siga hernum á mót­mælendur

Samúel Karl Ólason skrifar
Útsendarar heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna á götum Minneapolis í gærkvöldi.
Útsendarar heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna á götum Minneapolis í gærkvöldi. AP/John Locher

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að ef ráðamenn í Minnesota, sem hann kallar spillta, fylgi ekki lögum og stöðvi mótmæli gegn útsendurum Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE), muni hann taka yfir stjórn þjóðvarðliðs ríkisins eða mögulega senda þangað hermenn.

Þetta segir forsetinn í færslu á Truth Social þar sem hann talar um að beita lögum sem ætlað er að berjast gegn uppreisn í Bandaríkjunum.

Hann segir mótmælendur vera „atvinnu- æsingarmenn“ og uppreisnarmenn sem ráðist á föðurlandsvinina sem vinna fyrir ICE. Þeir séu eingöngu að reyna að vinna vinnu sína.

Verði þessir uppreisnarmenn ekki stöðvaðir af ráðamönnum í Minnesota segist Trump ætla að beita áðurnefndum lögum, sem á ensku kallast „Insurrection act“ og voru samin árið 1792, og binda fljótt enda á mótmælin.

Spenna í Minnesota

Mikil óreiða ríkir í Minnesota en þangað hefur ríkisstjórn Trumps sent þúsundir útsendara alríkisins. Þar er þeim ætlað að finna fólk sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum og rannsaka spillingu.

Ein kona var skotin til bana af starfsmanni ICE í síðustu viku og í gærkvöldi var maður skotinn í fótinn.

Sjá einnig: Mikil spenna í Minneapolis eftir bana­skot ICE-liða

Ítrekað hefur komið til mótmæla í borgum og bæjum Minneapolis á undanförnum vikum og hafa útsendarar heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna beitt táragasi og hvellsprengjum gegn mótmælendum.

Lögreglustjóri og borgarstjóri Minneapolis héldu blaðamannafund um stöðuna í gærkvöldi. Þar báðu þeir meðal annars mótmælendur að sýna stillingu og hætta að bíta á agn áðurnefndra útsendara.

Minnesota-ríki og yfirvöld í borgunum Minneapolis og St. Paul hafa höfðað mál gegn ríkisstjórn Trumps og krefjast þess að ríkinu verði gert að fjarlægja útsendara heimavarnaráðuneytisins.

Fyrr í dag neitaði alríkisdómari að meina ríkisstjórninni að hafa útsendara ráðuneytisins í Minnesota og gaf ríkisstjórninni frest til að bregðast við kröfu ráðamanna í ríkinu.


Tengdar fréttir

Nýtt myndband af banaskotinu: „Helvítis tík“

Fjöldi fólks kom saman í Minneapolis og Portland í Bandaríkjunum í gær til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda í innflytjendamálum undanfarna daga. Meira en þúsund mótmæli hafa verið skipulögð um helgina um landið allt og er þess krafist að stjórnvöld stöðvi aðgerðir.

„Trúið ekki þessari áróðursvél“

Donald Trump Bandaríkjaforseti kemur ICE, innflytjendaeftirliti Bandaríkjanna, til varnar eftir að fulltrúi ICE skaut í dag 37 ára bandarískan ríkisborgara til bana í Minneapolis í Minnesota. Ríkisstjóri Minnesota harmar atvikið en biðlar til íbúa að halda ró sinni, „bíta ekki á agnið“ og trúa ekki „áróðursvél“ Trump-stjórnarinnar. Ríkisstjórinn vill meina að aðgerðir ICE í borginni séu til þess fallnar að skapa óreiðu.

Walz hættir við framboð vegna árása Trump-liða

Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota og varaforsetaefni Kamölu Harris, tilkynnti í gær að hann væri hættur við að bjóða sig fram til þriðja kjörtímabilsins sem ríkisstjóri. Walz sagði að árásir Donalds Trump, forseta, og Repúblikana á hann og ríkið hefðu valdið miklum vandræðum og hann gæti ekki bæði sinnt starfi sínu sem ríkisstjóri og unnið að framboði sínu á sama tíma vegna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×