Erlent

Machado heim­sækir Hvíta húsið á fimmtu­dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump mun taka á móti Machado í Hvíta húsinu á fimmtudag og virðist, ef marka má erlenda miðla, vonast til þess að hún gefi honum friðarverðlaunin sem hún hlaut í fyrra.
Trump mun taka á móti Machado í Hvíta húsinu á fimmtudag og virðist, ef marka má erlenda miðla, vonast til þess að hún gefi honum friðarverðlaunin sem hún hlaut í fyrra. Getty/Rune Hellestad

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun taka á móti venesúelska stjórnarandstöðuleiðtoganum Maríu Corinu Machado í Hvíta húsinu á fimmtudaginn.

Machado sagðist í síðustu viku vilja hitta Trump til að þakka honum persónulega fyrir að hafa gripið til aðgerða gegn Nicolás Maduro, forseta Venesúela. Þá sagðist hún vilja gefa honum friðarverðlaun Nóbels, sem hún hlaut í fyrra.

Þess ber að geta að Machado getur gefið Trump verðlaunamedalíuna en Nóbelsnefndin segir verðlaunahafa ekki getað „framselt“ titilinn sem slíkan.

Margt bendir til þess að Maduro, sem var handsamaður af Bandaríkjamönnum í aðgerðum í Caracas þann 3. janúar síðastliðinn, hafi stolið forsetakosningunum árið 2024. Hann hafi í raun lotið í lægra haldi fyrir Edmundo González, frambjóðanda hreyfingar Machado, sem hafði verið bannað að taka þátt.

Bandaríkjamenn tóku hins vegar þá ákvörðun í kjölfar aðgerðanna fyrir tíu dögum að styðja varaforseta Maduro til að taka við, í stað þess að koma valdinu í hendur stjórnarandstöðunnar.

Trump, sem er afar súr yfir því að hafa ekki fengið friðarverðlaunin, sagði í kjölfar aðgerðanna að Machado hefði ekki þann stuðning né þá virðingu sem þyrfti til að taka við völdum. Þá hefur hann lýst Delcy Rodríguez, starfandi forseta, sem bandamanni, þrátt fyrir að hún hafi verið náin samverkamaður Maduro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×