Sport

Kastaði stól í leik­mann og er á leið í fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack MacKenzie sést hér eftr að hafa fengið stólinn í höfuðið.
Jack MacKenzie sést hér eftr að hafa fengið stólinn í höfuðið. Getty/Paul Devlin

Maður hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi eftir að hafa kastað hluta úr stól í þáverandi leikmann Aberdeen, Jack MacKenzie, á síðasta ári.

Atvikið átti sér stað í maí eftir að Aberdeen hafði tapað fyrir Dundee United á útivelli. Stuðningsmenn Dundee ruddust þá inn á völlinn í sigurvímu yfir því að félagið hafði tryggt sér fjórða sætið í deildinni og þar með þátttökurétt í Evrópukeppni á þessu tímabili.

MacKenzie, sem hafði setið á varamannabekknum allan leikinn, gekk eftir leikinn að stuðningsmönnum Aberdeen til að þakka þeim fyrir komuna. Sky Sports segir frá.

Þar varð hann fyrir hluta úr stól sem kastað var úr stúkunni. Stóllinn lenti í höfði hans og olli honum alvarlegum meiðslum. Hinn 25 ára gamli leikmaður hlaut djúpan skurð á vinstri augabrún og sár undir auganu.

Stuðningsmaðurinn, sem var hluti af „ultras“-hópi Aberdeen, játaði sök fyrir dómi í október.

Á sama tíma ávítti dómarinn hann.

„Þú hlýtur að hafa vitað að þú gætir hitt einhvern með því að kasta þessu. Ef þú gerðir það ekki er gáleysið með ólíkindum,“ sagði dómarinn.

Nú hefur hann hlotið átján mánaða fangelsisdóm. Hann fær heldur ekki að horfa á neina fótboltaleiki úr stúkunni næstu tíu árin. Fyrir er hann kominn í lífstíðarbann hjá Aberdeen.

Maðurinn var ölvaður þegar atvikið átti sér stað, að sögn lögmanns hans fyrir dómi.

MacKenzie spilar nú með Plymouth á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×