Erlent

Trump ó­sáttur við orð olíu­for­stjórans og vill úti­loka hann

Eiður Þór Árnason skrifar
Trump á leið um borð í Air Force One í gær þar sem hann lét ummælin falla.
Trump á leið um borð í Air Force One í gær þar sem hann lét ummælin falla. AP/Julia Demaree Nikhinson

Donald Trump Bandaríkjaforseti „hallast að því“ að útiloka bandaríska olíufyrirtækið ExxonMobil frá starfsemi í Venesúela. Hann greindi frá þessu í gær eftir að forstjóri fyrirtækisins lýsti yfir efasemdum um arðvænleika fjárfestinga í landinu eftir að Nicolás Maduro forseta var steypt af stóli.

Það að fá bandarísk og evrópsk olíufélög til að fjárfesta í Venesúela fyrir minnst hundrað milljarða bandaríkjadala hefur verið forgangsverkefni Bandaríkjastjórnar eftir handtöku Maduro. ExxonMobil er stærsta olíu- og gasfyrirtæki Bandaríkjanna.

„Mér líkaði ekki viðbrögð Exxon,“ sagði Trump við blaðamenn um borð í forsetaþotunni Air Force One rétt fyrir brottför frá West Palm Beach í Flórída í gær. „Þeir eru að spila þetta of krúttlega.“

Darren Woods, forstjóri ExxonMobil, á fundinum með Trump á föstudag. AP/Evan Vucci

AP-fréttaveitan greinir frá þessu. Á fundi með stjórnendum olíufyrirtækja á föstudag gerði Trump lítið úr áhyggjum af þeirri áhættu sem fylgi fjárfestingum í Venesúela. 

Sum fyrirtækin sem Bandaríkjastjórn hvetur nú til að fjárfesta í olíuvinnslu þar í landi hafa áður horft upp á stjórnvöld í Venesúela þjóðnýta eignir þeirra. Þeirra á meðal er ExxonMobil en forstjóri þess lýsti því að lagabreytingar og fjárfestingavernd þyrfti ef Exxon ætti að hefja aftur starfsemi í landinu, að því er fram kemur í frétt New York Times.

Sagði Venesúela ekki hæft til fjárfestinga

Fullyrti Trump á föstudag að fyrirtækin myndu eiga í beinum samskiptum við bandarísk yfirvöld frekar en við stjórnvöld í Venesúela. Þá sýndi hann því ekki áhuga að hjálpa Exxon að ná til baka þeim fjármunum sem fyrirtækið tapaði við þjóðnýtinguna fyrir um tveimur áratugum.

Þrátt fyrir tilraunir Trumps til að sefa áhyggjur olíustjórnendanna voru þeir ekki allir sannfærðir.

„Ef við lítum á þann ramma sem gildir um viðskipti í Venesúela í dag, þá er það ófjárfestingarhæft í dag,“ sagði Darren Woods, forstjóri ExxonMobil.

Bandaríkjastjórn vill stýra sölu á olíu 

Stjórnvöld í Venesúela hafa tekið yfir eignir einkafyrirtækja í gegnum tíðina líkt og áður segir. Þá hefur landið þurft að þola langvarandi pólitískan óstöðugleika og viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna.

AP-fréttaveitan greinir frá því að á föstudag undirritaði Trump tilskipun sem miðar að því að tryggja að áfram verði ekki hægt að nýta olíutekjur frá Venesúela í dómsmálum. Í tilskipuninni, sem birt var á laugardag, segir að ef fjármunir yrðu gerðir upptækir fyrir slíka notkun gæti það „grafið undan mikilvægri viðleitni Bandaríkjanna til að tryggja efnahagslegan og pólitískan stöðugleika í Venesúela.“

Hvíta húsið hefur lýst því yfir að Bandaríkjastjórn vilji hafa ítök í efnahagslífi Venesúela eftir valdaskiptin en hún hefur á síðustu mánuðum tekið yfir fjölda skipa sem flytja olíu frá Venesúela. Nú hafa stjórnvöld gefið út að Bandaríkin muni taka yfir sölu á þrjátíu til fimmtíu milljónum tunna af hráolíu sem féllu áður undir refsiaðgerðir og hyggist stjórna sölu á henni um allan heim um óákveðinn tíma.


Tengdar fréttir

Tóku fimmta olíuskipið: Svona virkar „skuggaflotinn“

Bandarískir hermenn tóku í morgun yfir stjórn olíuflutningaskipsins Olina á Karíbahafinu. Skipið er sagt bera olíu frá Venesúela og mun því hafa verið siglt undir fölsku flaggi. Þetta er fimmta skipið tengt Venesúela sem Bandaríkjamenn taka yfir á nokkrum vikum.

Trump-liðar hóta fauta Maduros sömu örlögum eða dauða

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og embættismenn hans hafa talað fyrir því að stjórnvöld í Venesúela verði friðsamir vinir Bandaríkjanna. Einn maður þykir líklegastur til að geta komið í veg fyrir að það raungerist. Sá maður heitir Diosdado Cabello.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×