Veður

Út­lit fyrir hríðar­veður á austasta hluta landsins í kvöld

Lovísa Arnardóttir skrifar
Útlit er fyrir hríðarveður á austasta hluta landsins í dag.
Útlit er fyrir hríðarveður á austasta hluta landsins í dag. Vísir/Egill

Nú í morgunsárið er vaxandi lægð á milli Íslands og Skotlands samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings. Þessi lægð beinir til okkar norðaustlægri átt og verður þannig víða fimm til þrettán metrar á sekúndu en sums staðar allhvasst við suðausturströndina. Él norðan- og austanlands, en léttskýjað um landið suðvestanvert. Frost verður líklega á bilinu nú ill til 10 stig.

Í dag dýpkar lægðin og hreyfist til norðausturs. Síðdegis fer því að bæta í vind auk þess sem snjókomubakki gengur inn yfir austasta hluta landsins; útlit fyrir hríðarveður á þeim slóðum í kvöld með tilheyrandi líkum á samgöngutruflunum.

Á morgun, mánudag, verður lægðin fyrir austan land og beinir þá til okkar ákveðinni norðanátt, víða 10-18 m/s en hvassviðri eða stormur á Suðausturlandi og Austfjörðum. Él víða um land, en lengst af þurrt sunnan heiða. Áfram svalt.

Á þriðjudag er svo útlit fyrir minnkandi norðan- og norðvestanátt með köldu og úrkomulitlu veðri. Nánar um veður á vef Veðurstofunnar og um færð vega á vef Vegagerðarinnar. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Norðan 10-18 m/s, en 18-23 á Suðausturlandi og Austfjörðum. Víða él, en úrkomulítið sunnanlands. Frost 0 til 6 stig.

Á þriðjudag:

Norðvestan 10-18 austanlands, annars hægari vindur. Bjart með köflum og sums staðar dálítil él. Herðir á frosti.

Á miðvikudag:

Norðaustan og austan 8-15 og skýjað með köflum, en hægari og dálítil él á Norðurlandi. Kalt í veðri, en hlýnar sunnantil um kvöldið með snjókomu eða slyddu.

Á fimmtudag:

Austlæg eða breytileg átt og slydda eða snjókoma með köflum. Hiti um eða undir frostmarki.

Á föstudag:

Norðaustlæg eða breytileg átt og dálítil él, en þurrt að mestu sunnanlands. Heldur kólnandi.

Á laugardag:

Austlæg átt og él á víð og dreif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×