Körfubolti

Frá­bær sigur Tryggva og fé­laga

Sindri Sverrisson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason tók meðal annars fimm fráköst í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason tók meðal annars fimm fráköst í kvöld. Getty/Borja B. Hojas

Eftir að hafa orðið í 3. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2025 hefur Tryggvi Snær Hlinason unnið tvo leiki í röð með Bilbao Basket, í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Bilbao vann afar sterkan sigur á Murcia í kvöld, 96-82, en Murcia situr í 3. sæti deildarinnar með tíu sigra, nú úr fimmtán leikjum.

Bilbao hafði áður unnið Girona fyrir tæpri viku og er nú með sjö sigra í 9. sæti deildarinnar.

Tryggvi skoraði fjögur stig í kvöld, tók fimm fráköst og átti tvær stoðsendingar, en hann spilaði um sextán mínútur.

Fyrr í kvöld var Elvar Már Friðriksson á ferðinni með liði Anwil í pólsku úrvalsdeildinni, en varð að sætta sig við 83-74 tap gegn Sopot á útivelli. Elvar átti flestar stoðsendingar í sínu liði eða átta talsins og tók fjögur fráköst en skoraði ekki að þessu sinni.

Sopot er næstefst í deildinni eftir fimmtán leiki, með tíu sigra, en Anwil er í 6. sæti með átta sigra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×