Handbolti

Ríkjandi meistarar Frakka bíða strákanna okkar

Sindri Sverrisson skrifar
Dika Mem og félagar munu eflaust bjóða upp á alvöru próf fyrir strákana okkar í síðasta leik fyrir EM.
Dika Mem og félagar munu eflaust bjóða upp á alvöru próf fyrir strákana okkar í síðasta leik fyrir EM. Getty/Sanjin Strukic

Generalprufa strákanna okkar fyrir EM í handbolta verður gegn ríkjandi Evrópumeisturum Frakklands, á þeirra heimavelli, á sunnudaginn. Fyrstu mótherjar Íslands á EM, Ítalir, fögnuðu sigri í kvöld.

Þetta varð ljóst í kvöld eftir að Ísland vann Slóveníu og Frakkland hafði betur gegn Austurríki, á fjögurra liða æfingamóti í Frakklandi.

Sigur Íslands á Slóveníu var afar öruggur en Frakkar áttu í meiri vandræðum með að hrista Austurríkismenn af sér, þó að þeir hafi á endanum unnið fimm marka sigur, 34-29.

Frakkar voru vel studdir í hinni risastóru höll Paris La Défense Arena en höfðu lengst af aðeins naumt forskot og voru 18-16 yfir í háfleik. Munurinn var aðeins eitt mark, 28-27, þegar sjö mínútur voru eftir en Frakkar reyndust sterkari á lokasprettinum.

Markvörðurinn Charles Bolzinger átti góða innkomu og var valinn maður leiksins.

Ítalir fögnuðu sigri í Þórshöfn

Það verða því Frakkland og Íslands sem mætast í úrslitaleik mótsins á sunnudaginn, klukkan 16 að íslenskum tíma, áður en liðin halda svo á Evrópumótið þar sem þau munu ekki mætast nema í fyrsta lagi í undanúrslitum eða leik um sæti.

Fyrsti leikur Íslands á EM verður við Ítalíu á föstudaginn eftir slétta viku. Ítalir eru staddir í Færeyjum og unnu þar fyrri leik sinn við heimamenn í kvöld, 36-34, eftir að Færeyingar höfðu verið 19-17 yfir í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×