Sport

Engum hefur enn tekist að skora hjá syni Zidane á Afríkumótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luca Zidane fagnar sigri með alsírska landsliðinu á Afríkumótinu.
Luca Zidane fagnar sigri með alsírska landsliðinu á Afríkumótinu. Getty/Ulrik Pedersen/

Franska goðsögnin Zinedine Zidane var meðal áhorfenda á leik Alsír og Kongó í sextán liða úrslitum Afríkumótsins og ekki af ástæðulausu. Sonur hans spilar fyrir alsírska landsliðið.

Zidane ferðaðist því til Marokkó til að horfa á son sinn, Luca Zidane, spila í Afríkukeppninni 2025.

Zizou hefur ekki misst af neinum leik sonar síns hingað til og Luca hefur svo sannarlega ekki valdið föður sínum vonbrigðum.

Luca Zidane hefur nefnilega ekki enn fengið á sig mark í öllum Afríkukeppnunum hingað til.

Hann er búinn að spila þrjá af fjórum leikjum og halda hreinu í þeim öllum.

Alsír vann 3-0 sigur á Súdan, 1-0 sigur á Búrkína Fasó og 1-0 sigur á Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í þessum þremur leikjum. Hann spilaði ekki leikinn á móti Miðbaugs-Gíneu þar sem Alsír fékk eina markið á sig í keppninni í 3-1 sigri. Anthony Mandréa var í markinu í þeim leik.

Luca Zidane hélt hreinu í hinum þremur leikjunum og er orðinn einn af fremstu markvörðum keppninnar á sínu fyrsta stóra alþjóðlega móti.

Hann spilaði áður fyrir yngri landslið Frakklands áður en hann ákvað formlega að spila fyrir Alsír árið 2025.

Frammistaða hans hjálpaði Alsír að komast í átta liða úrslit og það er enginn vafi á því að faðir hans, Zinedine Zidane, er afar stoltur af syni sínum.

Luca er markvörður spænska liðsins Granada en hafði bara haldið þrisvar hreinu í spænsku B-deildinni í vetur.

Alsír mætir Nígeríu í átta liða úrslitum keppninnar á morgun. Liðið sat eftir í riðlakeppninni á síðustu tveimur Afríkumótum en vann Afríkutitilinn síðast fyrir sjö árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×