Fótbolti

Snjóbylur gæti lengt jóla­frí liða í þýska boltanum

Sindri Sverrisson skrifar
Snjór hefur stundum sett strik í reikninginn í þýska fótboltanum í gegnum tíðina.
Snjór hefur stundum sett strik í reikninginn í þýska fótboltanum í gegnum tíðina. Getty/Martin Rose

Hætta er á því að fresta þurfi leik eða leikjum í þýsku 1. deildinni í fótbolta um helgina vegna mikillar snjókomu og fárviðris sem spáð er.

Leikur St. Pauli og RB Leipzig á laugardaginn er sérstaklega talinn í hættu og hefur St. Pauli sent frá sér tilkynningu þess efnis, þar sem segir að ekki sé hægt að tryggja að leikurinn fari fram á tilsettum tíma.

Þýska veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun um 24 klukkutíma veðurofsa á Hamborgarsvæðinu, frá föstudagsmorgni, þar sem búist er við þungri snjókomu og að stormurinn „Elli“ muni gera fólki lífið leitt.

Fyrr í dag hafði þýska knattspyrnusambandið gefið út að bjartsýni ríkti um að allir níu leikirnir um helgina gætu farið fram, í fyrstu umferðinni eftir jólafrí, en talsmaður sambandsins sagði svo að svo gæti farið að leikjum í norðri og austri yrði frestað.

St. Pauli spilaði vináttuleik við Werder Bremen síðasta sunnudag og það tókst þrátt fyrir snjókomuna sem verið hafði. Félagið hafði þá sent út neyðarkall til stuðningsmanna og yfir fimmtíu manns mættu til að hjálpa til við að moka snjó af vellinum og fengu þeir bakkelsi að launum.

Leikur Werder Bremen við Hoffenheim og leikur Union Berlín við Mainz eru einnig taldir í hættu um helgina, vegna óveðursins. Þá er ljóst að veðrið kemur einnig til með að hafa mikil áhrif á stuðningsmenn vegna vandræða með samgöngur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×