Uppgjörið: KR- Ármann 102-93 | KR náði í sigur í kaflaskiptum leik Árni Jóhannsson skrifar 8. janúar 2026 18:33 Vísir/Anton Brink KR kláraði sigur gegna Ármanni í Bónus-deild karla í körfubolta í Vesturbæ í 13. umferð deildarinnar. Leikurinn var saga tveggja hálfleikja þar sem Ármenningar voru frábærir í fyrri hálfleik en heimamenn ekki með fyrr en í lokin. Seinni hálfleikur var hörkuleikur og sneri KR dæminu við og innbyrti sigur . Eftir að KR skoraði fyrstu körfu leiksins þá settu Ármenningar í fluggír og ruku af stað í gott forskot. KR var ekki með á nótunum, hvorki í vörn né sókn og gestirnir þáðu það með þökkum. Bragi Guðmundsson leiddi sína menn áfram og hitti úr fjórum fyrstu þristunum sínum á meðan Linards Jaunsems var sá eini KR megin sem gerði eitthvað af viti. Allar gáttir voru opnar fyrir Ármann sem fór með þægilegt 13 stiga forskot inn í leikhlutaskiptin 24-37. KR rankaði örlítið við sér í upphafi annars leikhluta en Ármann hélt forskotinu enn þægilegu þangað til um miðbik annars leikhluta. Þá náðu KR-ingar að vekja ákafa hjá sér í varnarleiknum og því fylgdu síðan körfur á hinum enda vallarins. KR náði 8-0 sprett sem skar forskotið niður í sex stig rétt eftir miðjan leikhlutann og var staðan 52-58 fyrir gestina sem höfðu átt frábæran hálfleik. Leikurinn var í góðu jafnvægi í seinni hálfleik en bæði liðin voru mjög gjafmild á teiginn sinn og nýttu sér það bæði hve leiðin var greið upp að körfu hvors annars. Ármann náði þess vegna að halda forystunni alveg þangað til að KR náðu að sauma saman nokkur stopp og grípa gæsina þegar hún gafst í lok þriðja leikhluta. Komust þeir yfir og leiddu eftir leikhlutann 81-77. Ármann náði að jafna metin 81-81 en þá náðu KR tökum á leiknum. Þau tök voru þó ekki traust og leið blaðamanni aldrei eins og þetta væri að klárast fyrir KR fyrr en í blálokin. Hiti hljóp í mannskapinn en KR sigldi fram úr á síðustu tveimur mínútum leiksins og innbyrti níu stiga sigur 102-93. Atvik leiksins Ég ræddi að hiti hafi hlaupið í leikinn undir lok hans. Þá voru Bragi Guðmundsson og Linardas Jaunsems í baráttu þar sem Bragi braut á KR-ingnum sem slæmdi hendinni frá sér og virtist hitta Braga harkalega. Ármenningar vildu þá villu á Linards sem var með fjórar villur og hefði fokið út af þegar um þrjár mínútur voru eftir. Það hefði getað munað um minna fyrir Ármann en ekkert var dæmt og allir Ármenningar og mæður þeirra voru hundfúlir. Stjörnur og skúrkar Ég vel enga skúrka í þetta sinn. Þetta var fínasti körfuboltaleikur en stjörnurnar voru tvær í þetta sinn. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson leiddi sína menn til sigur. Hann skoraði 28 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hin stjarna leiksins var hinum megin en Bragi Guðmundsson var frábær fyrir sína menn og skilaði 32 stigum, tók átta fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal fjórum boltum. Umgjörð og stemmning Vel mætt frá báðum fylkingum og látið vel í sér heyra. Ekkert út á það að setja. Dómararnir Ég er búinn að tala um atvik leiksins sem tengdist dómgæslu. Ármenningar eru óánægðari aðilinn í þetta sinn og fannst halla á sig en það sem hægt er að taka undir er að það er engin lína. Stundum er dæmt lítið, stundum eru dæmdar skrítnar villur og stundum er dæmt á allt. Jakob: Ég tek sigurinn „Við spiluðum náttúrlega miklu betri vörn í seinni hálfleik“, sagði þjálfari KR, Jakob Sigurðsson, þegar hann var spurður að því hvernig KR sneri leiknum sér í vil í seinni hálfleik. „Það var aðallega það sem var vandamálið í byrjun leiks og framan af í fyrri hálfleik. Við gáfum þeim færi á að fá auðveldar körfur í byrjun leiks. Bæði með lélegum varnarleik og töpuðum boltum. Þeir komust bara á bragðið og voru að hitta mjög vel.“ Hefur Jakob skýringu á reiðum höndum? „Nei, ekki þannig séð. Við breyttum varnarlega eftir fyrsta leikhluta og það virkaði.“ Var Jakob þá ekki ánægður með að hans menn hafi brugðist við og snúið leiknum við? „Maður er alltaf ánægður með sigurinn og alltaf hægt að taka eitthvað út úr þessum leikjum. Ég var ánægður með að liðið stóð saman og þetta varð ekki einstaklingsbolti þó að við værum að elta.“ Hvað er hægt að taka út úr þessum leik? „Ég tek sigurinn, ég tek að við gátum brugðist við og breytt varnartaktík í miðjum leik. Það er aðallega það.“ KR á Breiðablik í bikarkeppni KKÍ í næsta leik. Hvernig sér Jakob fyrir sér að hann þurfi að undirbúa liðið sitt fyrir þann leik? „Bara mjög vel. Við sýndum sjálfum okkur það í kvöld að ef við erum ekki klárir frá byrjun þá geta lið skorað fullt af stigum á okkur á stuttum tíma. Við þurfum klárlega að læra af þessu og vera klárir á mánudaginn.“ Þá var hann með fréttir af Vlatko Granic sem sneri sig illa milli jóla og nýárs og beðið er eftir að bólga í ökkla hjaðni. Bónus-deild karla KR Ármann
KR kláraði sigur gegna Ármanni í Bónus-deild karla í körfubolta í Vesturbæ í 13. umferð deildarinnar. Leikurinn var saga tveggja hálfleikja þar sem Ármenningar voru frábærir í fyrri hálfleik en heimamenn ekki með fyrr en í lokin. Seinni hálfleikur var hörkuleikur og sneri KR dæminu við og innbyrti sigur . Eftir að KR skoraði fyrstu körfu leiksins þá settu Ármenningar í fluggír og ruku af stað í gott forskot. KR var ekki með á nótunum, hvorki í vörn né sókn og gestirnir þáðu það með þökkum. Bragi Guðmundsson leiddi sína menn áfram og hitti úr fjórum fyrstu þristunum sínum á meðan Linards Jaunsems var sá eini KR megin sem gerði eitthvað af viti. Allar gáttir voru opnar fyrir Ármann sem fór með þægilegt 13 stiga forskot inn í leikhlutaskiptin 24-37. KR rankaði örlítið við sér í upphafi annars leikhluta en Ármann hélt forskotinu enn þægilegu þangað til um miðbik annars leikhluta. Þá náðu KR-ingar að vekja ákafa hjá sér í varnarleiknum og því fylgdu síðan körfur á hinum enda vallarins. KR náði 8-0 sprett sem skar forskotið niður í sex stig rétt eftir miðjan leikhlutann og var staðan 52-58 fyrir gestina sem höfðu átt frábæran hálfleik. Leikurinn var í góðu jafnvægi í seinni hálfleik en bæði liðin voru mjög gjafmild á teiginn sinn og nýttu sér það bæði hve leiðin var greið upp að körfu hvors annars. Ármann náði þess vegna að halda forystunni alveg þangað til að KR náðu að sauma saman nokkur stopp og grípa gæsina þegar hún gafst í lok þriðja leikhluta. Komust þeir yfir og leiddu eftir leikhlutann 81-77. Ármann náði að jafna metin 81-81 en þá náðu KR tökum á leiknum. Þau tök voru þó ekki traust og leið blaðamanni aldrei eins og þetta væri að klárast fyrir KR fyrr en í blálokin. Hiti hljóp í mannskapinn en KR sigldi fram úr á síðustu tveimur mínútum leiksins og innbyrti níu stiga sigur 102-93. Atvik leiksins Ég ræddi að hiti hafi hlaupið í leikinn undir lok hans. Þá voru Bragi Guðmundsson og Linardas Jaunsems í baráttu þar sem Bragi braut á KR-ingnum sem slæmdi hendinni frá sér og virtist hitta Braga harkalega. Ármenningar vildu þá villu á Linards sem var með fjórar villur og hefði fokið út af þegar um þrjár mínútur voru eftir. Það hefði getað munað um minna fyrir Ármann en ekkert var dæmt og allir Ármenningar og mæður þeirra voru hundfúlir. Stjörnur og skúrkar Ég vel enga skúrka í þetta sinn. Þetta var fínasti körfuboltaleikur en stjörnurnar voru tvær í þetta sinn. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson leiddi sína menn til sigur. Hann skoraði 28 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hin stjarna leiksins var hinum megin en Bragi Guðmundsson var frábær fyrir sína menn og skilaði 32 stigum, tók átta fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal fjórum boltum. Umgjörð og stemmning Vel mætt frá báðum fylkingum og látið vel í sér heyra. Ekkert út á það að setja. Dómararnir Ég er búinn að tala um atvik leiksins sem tengdist dómgæslu. Ármenningar eru óánægðari aðilinn í þetta sinn og fannst halla á sig en það sem hægt er að taka undir er að það er engin lína. Stundum er dæmt lítið, stundum eru dæmdar skrítnar villur og stundum er dæmt á allt. Jakob: Ég tek sigurinn „Við spiluðum náttúrlega miklu betri vörn í seinni hálfleik“, sagði þjálfari KR, Jakob Sigurðsson, þegar hann var spurður að því hvernig KR sneri leiknum sér í vil í seinni hálfleik. „Það var aðallega það sem var vandamálið í byrjun leiks og framan af í fyrri hálfleik. Við gáfum þeim færi á að fá auðveldar körfur í byrjun leiks. Bæði með lélegum varnarleik og töpuðum boltum. Þeir komust bara á bragðið og voru að hitta mjög vel.“ Hefur Jakob skýringu á reiðum höndum? „Nei, ekki þannig séð. Við breyttum varnarlega eftir fyrsta leikhluta og það virkaði.“ Var Jakob þá ekki ánægður með að hans menn hafi brugðist við og snúið leiknum við? „Maður er alltaf ánægður með sigurinn og alltaf hægt að taka eitthvað út úr þessum leikjum. Ég var ánægður með að liðið stóð saman og þetta varð ekki einstaklingsbolti þó að við værum að elta.“ Hvað er hægt að taka út úr þessum leik? „Ég tek sigurinn, ég tek að við gátum brugðist við og breytt varnartaktík í miðjum leik. Það er aðallega það.“ KR á Breiðablik í bikarkeppni KKÍ í næsta leik. Hvernig sér Jakob fyrir sér að hann þurfi að undirbúa liðið sitt fyrir þann leik? „Bara mjög vel. Við sýndum sjálfum okkur það í kvöld að ef við erum ekki klárir frá byrjun þá geta lið skorað fullt af stigum á okkur á stuttum tíma. Við þurfum klárlega að læra af þessu og vera klárir á mánudaginn.“ Þá var hann með fréttir af Vlatko Granic sem sneri sig illa milli jóla og nýárs og beðið er eftir að bólga í ökkla hjaðni.